17,5 milljónir í öryggismál Stjórnarráðsins

13.09.2017 - 14:46
Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem dreift var í gær, gerir forsætisráðuneytið ráð fyrir að verja 17,5 milljónum til að styrkja öryggismál í Stjórnarráðinu. Þetta er gert í samræmi við tillögur frá embætti ríkislögreglustjóra. Þá vill ráðuneytið verja 30 milljónum til að mæta útgjöldum vegna framkvæmda við heimreið og heimasvæði á Bessastöðum.

Þetta er í annað sinn á þremur árum þar sem lagt er til að öryggismál í Stjórnarráðinu eru styrkt. Fyrir tveimur árum óskaði forsætisráðuneytið eftir 15 milljón króna framlagi á fjárlögum vegna tillagna sem embætti ríkislögreglustjóra hafi lagt áherslu á að yrðu uppfylltar. Þetta hefur þó ekki verið skýrt frekar.

Í fjárlagafrumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að verja 85 milljónum króna til að vinna að viðamiklum verkefnum sem sögð eru tengjast helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar.

Frumvarpið nefnir meðal annars endurskoðun peningastefnu og svo stöðugleikasjóð en Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði í mars á þessu ári að vel kæmi til að greina að stofna sjóð í útlöndum til að byggja undir stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að verja 25 milljónum króna í endurbætur og viðhald á húsnæði, eignum og jörð á Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem Jón Sigurðsson, frelsishetja, fæddist þann 17. júní 1811.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV