188 mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar

14.09.2017 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
188 mál eru á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var á vef Stjórnarráðsins seint í gærkvöld. Fjármálaráðherra er með flest eða 37 en forsætisráðherra fæst eða 5. Þjóðarsjóður, helgidagafriður og ný tilraun til heildarendurskoðunar á Lánasjóði íslenskra námsmanna eru meðal þeirra frumvarpa sem finna má á þingmálaskránni.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hyggst í febrúar leggja fram frumvarp um stofnun sérstaks þjóðarsjóðs. „Þjóðarsjóði verður m.a. ætlað að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu,“ segir í þingmálaskránni. 

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, er með fjórtán mál á sinni könnu. Strax í byrjun næsta árs ætlar hún að leggja fram frumvarp þar sem kveðið verður á um að fella niður bann við ýmiskonar starfsemi á ákveðnum helgidögum þjóðkirkjunnar.

Í nóvember ætlar Sigríður svo að leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að reglur um uppreist æru verði afnumdar- mál sem hefur verið mikið hitamál síðustu vikur. „Gera þarf því breytingar á ýmsum lögum sem gera kröfu um óflekkað mannorð til að gegna starfi eða stöðu ef veita á undanþágu frá því skilyrði eða gera aðrar kröfur í staðinn,“ segir  í þingmálaskránni en störf sem gera kröfu um óflekkað mannorð eru lögmenn, endurskoðendur og þingmenn. 

Á lista Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamálaráðherra, eru sextán mál, meðal annars frumvarp um Flugþróunarsjóð. Honum er ætlað að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, er með tólf mál á sínu borði en hann ætlar meðal annars að endurflytja sterafrumvarpið  og svo rafrettu-frumvarpið. Í þingmálaskránni kemur fram að rafrettufrumvarpið verði lagt fram í október og að það sé endurflutt að hluta.

Sextán mál eru á dagskrá hjá Þorsteini Víglundssyni, félagsmálaráðherra, og tíu hjá Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta-og mennigamálaráðherar. Kristján ætlar meðal annars að leggja til breytingar á launasjóð stórmeistara í skák þannig að greiðslum til þeirra verði með sama hætti og listamannalaun.

Þá boðar Kristján einnig heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna eins og forveri hans í starfi. Þetta virðist þó vera annað frumvarp en Illugi lagði fram á sínum tíma því hvergi er minnst á að frumvarpið sé endurflutt. Miðað við þingmálaskrá er gert ráð fyrir að frumvarpið líti dagsins ljós í febrúar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs - og landbúnaðarráðherra, er með ellefu mál, meðal annars frumvarp um fiskeldi, ný lög um Matvælastofnun og í mars er gert ráð fyrir frumvarpi um fyrirkomulag gjaldtöku fiskveiðiheimilda.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, er með 24 mál á sinni dagskrá, meðal annars uppfærslu á lögum um köfun þar sem áhersla verður lögð á öryggi, eftirlit og ábyrgð, „ekki síst í ljósi aukinna slysa við frístundaköfun,“ segir í þingmálaskránni.

Átján mál eru þingmálaskrá Bjartar Ólafsdóttur, umhverfisráðherra. Í febrúar mun hún meðal annars kynna Hvítbók um náttúruauðlindir þar sem finna verður samræmt yfirlit yfir þær, gerð þeirra og umfang. „Áætlað er að skýrslan nýtist til að auka skilning á þeim náttúruauðlindum sem Ísland býr yfir og styrki forsendur fyrir ákvarðanatöku um stjórnun, vernd og sjálfbæra nýtingu þeirra.“ 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er með 25 mál á sinni könnu. Hann ætlar að  leggja til breytingar á lögum um Íslandsstofu í september og í febrúar á næsta ári er lagt til að stofnaður verði Háskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.  Undir þá stofnun myndu falla fjórir skólar sem nú starfa á vegum Háskóla SÞ á Íslandi en með frumvarpinu væri gert ráð fyrir að stofnunin yrði hluti af Háskóla SÞ með formlega stöðu alþjóðastofnunar. 

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV