3,8 milljónir á flótta í Kongó

epa04755469 Burundian refugee children line up to receive clothes from UNHCR (United Nations High Commissioner for Refugees) staff in a refugee camp in Gashora, some 55km south of the capital Kigali, Rwanda, 18 May 2015. According to the UN refugee agency
 Mynd: EPA
Allt að 3,8 milljónir flóttafólks eru á hrakningum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, nær tvöfalt fleiri en fyrir hálfu ári, samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Verst er ástandið í Kasai-héraði, þar sem 1,4 milljónir hafa hrökklast frá heimilum sínum vegna linnulítilla og blóðugra bardaga, sem hafa kostað yfir 3.000 manns lífið.

George Okoth-Obbo, aðstoðarframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunarinnar, segir flóttafólkið í Kasai bráðvanta hvort tveggja fæðu og fatnað, og það sem allra fyrst. Okoth-Obbo er nýkominn úr þriggja daga heimsókn til Kongó og segir ástandið skelfilegt, ekki síst fyrir börnin, sem búi við hörmulegar aðstæður sem Vesturlandabúar eigi erfitt með að ímynda sér.

Ofbeldisaldan í Kasai reis í kjölfar þess að stjórnarhermenn felldu ættarhöfðingjann og uppreisnarleiðtogann Kamwina Nsapu í október 2016. Ekkert lát er á átökum uppreisnarsveita og stjórnarliða í héraðinu og raunar hafa þau frekar harðnað en hitt síðustu mánuði.

Vígaferli Bantú-manna og Pygmýja í Tanganyika-héraði í suðausturhluta landsins hafa einnig hrakið tugi þúsunda á flótta og víða annarstaðar er ástandið litlu skárra. Ofan á þetta bætist allt að hálf milljón flóttamanna frá nágrannaríkjunum Búrúndí, Rúanda, Suður-Súdan og Miðafríkulýðveldinu, sem hrökklast hefur til Kongó vegna stríðsátaka heimafyrir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV