Æskuvinir Róberts skrifuðu bréfin fyrir hann

12.09.2017 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Dómsmálaráðuneytið birti nú á fimmta tímanum tvö bréf Roberts Downeys til dómsmálaráðuneytisins þegar hann fór fram á uppreist æru og meðmælabréf frá þremur mönnum sem skrifuðu til stuðnings því að hann fengi uppreist æru. Upplýsingarnar eru birtar eftir að úrskurðarnefnd upplýsingamála felldi þann úrskurð að ráðuneytið þyrfti að afhenda fréttastofu RÚV gögnin.

Tveir mannanna sem skrifa meðmælabréf eru æskuvinir Roberts. Sá þriðji er yngri en hefur þekkt hann um langa hríð. 

Annar æskuvinanna, Halldór Einarsson atvinnurekandi, segir að það sé sér mikil ánægja að veita umsögn um Róbert. Hann segist hafa þekkt Róbert Árna frá barnæsku og geti með góðri samvisku fullyrt að Róbert Árni hafi „hegðað sér óaðfinnanlega í lífi og starfi frá því, að hann kom úr fangelsi“. Hann segir mikla og góða ævarandi vináttu, traust og trúnað ríkja milli þeirra tveggja.

Hinn æskuvinurinn, Viðar Marel Jóhannsson kennari, segir dugnað, ósérhlífni og hjálpsemi þau orð sem komi upp í hugann þegar lýsa eigi Róbert Árna sem hann hafi þekkt í 45 ár. Hann sé góður vinur og alltaf reiðubúinn að rétta hjálparhönd og vera vinur vina sinna. Maðurinn segir alla sem til þekkja geta borið vitni um að Róbert Árni reynist traustsins verður. Mannkostir hans eigi eftir að reynast honum vel og að það sem hann var dæmdur fyrir endurtaki sig ekki.

Þriðji maðurinn, Gautur Elvar Gunnarsson lögfræðingur, segist hafa þekkt Róbert Árna um langa hríð, af góðu einu bæði persónulega og í starfi. Hann mælir eindregið með því að Robert fái uppreist æru og telur hann verðugan til þess. Lögfræðingurinn segir Róbert hafa hagað sér óaðfinnanlega síðan hann fékk reynslulausn.

Sendi ráðuneytinu tvö bréf

Dómsmálaráðuneytið birti í kvöld tvö bréf Roberts til ráðuneytsins auk meðmælabréfanna. Í fyrra bréfinu segir Robert að rúm tvö og hálft ár séu liðin frá því hann lauk afplánun, hann hafi lifað reglusömu og heiðarlegu lífi og fari þess því á leit að honum verði veitt uppreist æru. Hann vísar til laga um uppreist æru og venju í framkvæmd afgreiðslu slíkra beiðna. Með fylgdu meðmælabréfin þrjú.

Einu og hálfu ári síðar sendi Robert ráðuneytinu annað bréf og rak eftir svörum. Hann sagðist ekkei hafa gerst brotlegur við þær reglur sem gilda um afplánun og gætu leitt til þess að ákvörðun um veitingu reynslulausnar væri afturkölluð. Þá væru liðin rúm fimm ár frá því hann lauk afplánun refsingar og „í ljósi síðustu frétta af veitingu uppreisnar æru, tel ég rétt að ítreka beiðni mína nú. En sá aðili, sem hana síðast fékk, að ég best veit, hafði fengð margfallt þyngri dóm en ég.“ Sá maður mun vera Atli Helgason sem fékk uppreist æru eftir að hafa afplánað dóm fyrir morð. Hann sótti síðar um endurheimt lögmannsréttinda en dró umsókn sína til baka eftir mikla fjölmiðlaumræðu og mótmæli fjölskyldu mannsins sem hann myrti.

Seinna bréfið ritaði Robert 8. apríl 2016, stílaði á þáverandi forseta og dómsmálaráðherra og óskaði eftir svari ekki síðar en 1. maí sama ár. Með bréfinu sendi Robert bréf Fangelsismálastofnunar um reynslulaus sína 7. desember 2010 og tók fram að reynslutíminn, sem var tvö ár, væri löngu liðinn.

Úrskurðir úrskurðarnefndar upplýsingamála eru endanlegir og fordæmisgefandi. Af því leiðir að ráðuneytinu verður skylt að veita sambærilegar upplýsingar um aðra sem hlotið hafa uppreist æru og meðmælendur þeirra. 32 hafa fengið uppreist æru frá árinu 1995.

Fréttin hefur verið uppfærð.