Áhætta fylgir því að byggja á uppfyllingum

07.06.2017 - 13:05
„Við þurfum að fylgjast með því sem er að gerast,“ segir Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur um aðlögun Íslendinga að áhrifum hlýnunar andrúmsloftsins. Hann ræddi á Morgunvaktinni á Rás 1 helstu ógnanir og viðbrögð við þeim. Súrnun sjávar er mesta ógnunin en hækkun sjávarborðs getur líka skapað mikla hættu í byggðum á uppfyllingum með ströndinni.

Jöklar hafa hopað, árfarvegir þornað, landið grænkað. Halldór Björnsson benti á það á Morgunvaktinni að vegna hlýnunar hefði gróður mest tekið við sér á vestan– og norðvestanverðu landinu vegna breytinga í hafinu. Síður um landið austanvert. Hlýnunarskeið hófst upp úr 1980 og nú mælist hiti meiri en nokkru sinni áður. Auk náttúrulegrar sveiflu bætist hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. „Þetta byggist allt á mælanlegum staðreyndum. Við vitum hvað hefur hlýnað mikið. Vitum hvaða áhrif gróðurhúsalofttegundir hafa. Þetta er allt hægt að mæla og staðreyna. Það eru til útreikningar frá því um 1985 sem segja til um losun og hlýnun. Það hefur allt gengið eftir. Það er ekki eins og þetta séu innantómar vangaveltur. Þetta er kalt mat. Staðreyndirnar segja manni að hlýnun jarðar er að miklu leyti drifin af manna völdum,“ segir Halldór Björnsson í tilefni þess sem efasemdarmenn segja um áhrif loftslagsbreytinga – og bætir við:

„Það er voðalega erfitt í vísindum að víkja sér undan staðreyndum. Menn verða að hafa mikið ímyndunarafl ef komast á framhjá þeim.“

Ein helsta ógnunin við aukið CO2-magn í lofthjúpnum er súrnun sjávar. Kolsýran í hafinu hefur áhrif á kalkbúskap lífvera og afleiðingarnar eru víðtækar og margvíslegar á allt vistkerfið, frá svifi og botndýrum til fiska sem ofar eru í fæðukeðjunni.

„Ísland er þannig staðsett að hér koma áhrifin hvað fyrst fram. Þetta er það sem er hvað ógnvænlegast fyrir Íslendinga – þessi súrnun sjávar.“

Súrnun sjávar
 Mynd: ruv

Önnur hætta fekst í hækkaðri sjávarstöðu. Bráðnun Grænlandsjökuls hefur raunar áhrif til lækkunar sjávarstöðu hér en öðru máli gegnir um bráðnun á Suðurskautinu og hækkun sjávar vegna almennrar hlýnunar. Fylgjast þarf betur með þessum áhrifum við strendur Íslands, segir Halldór Björnsson. Hann bendir á að skæðustu flóðin verði ekki vegna almennrar hækkunar sjávarborðs heldur í óveðrum, við sérstakar aðstæður, þegar krappar lægðir koma að landinu þegar sjávarstaða er há. Halldór bendir á að til að meta líkur á flóðum þurfi að langtímamælingar og vel hannað mælinet. Þar vanti töluvert upp á. Á Morgunvaktinni var rætt um flóðahættu á uppfyllingum á höfuðborgarsvæðinu. Ný hverfi hafa risið og önnur eru fyrirhuguð, þar sem veruleg hætta er á að flæða muni inn á, nema gripið verði til sérstakra ráðstafana. „Um leið og menn byggja á svona svæðum er verið að taka áhættu og segja við þá sem búa þar: Þið verðið bara að leysa vandamálið sjálf. En það eru alltaf til verkfræðilega lausnir á svona málum – að bæta við dælum og brunnum. En hættan er sú að þetta gerist í vondu veðri. Þá þurfa menn að vera vissir um að rafmagn sé til staðar þegar á þarf að halda.“ Halldór Björnsson vildi ekki fullyrða að óskynsamlegt væri að reisa svokallaða Vogabyggð í Reykjavík. Það væri ekki hans að segja til um það heldur benda á hvað þurfi að vera til staðar. „Það er náttúrulega ljóst til langtíma litið þá er verið að búa til vandræði fyrir einhverja með öllum byggðum á uppfyllingum.“ 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi