Brýnt að gera áætlun um áhrif sjórofs

13.06.2017 - 09:51
„Það er brýnt að gera áætlanir fyrir menningarminjar við sjó. Þetta er menningarsaga okkar, fléttuð saman við fortíðina,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður. Hún fékk á dögunum svör frá þremur ráðherrum við fyrirspurn sinni um áætlun um skráningu og vernd menningarminja sem eru í hættu vegna sjávarrofs.

Rætt var við Lilju á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar benti Lilja á að hér á landi væru ekki til hallir til minningar um forna tíð og því væri brýnt að vernda minjar við sjó. Þær væru hluti af sögunni og þeim bæri að sýna tilhlýðilega virðingu. Fyrirspurnum sínum á Alþingi beindi hún til mennta- og menningarmálaráðherra, auðlinda- og umhverfisráðherra og til ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. „Í samgönguáætlun er unnið að því að greina áhrif og endurmeta hættu á sjávarflóðum og rofi. Það hefur því miður ekki skilað sér inn í fjárlögin sem skyldi. Á síðustu fjárlögum voru felldar niður 90 milljónir sem áttu að fara í varnir. Þessi verkefni eru brýn en það vill brenna við að það sem ekki er að gerast í núinu verði neðst á forgangslistanum.“

Vísindanefnd skilar skýrslu á þessu ári

Í svari auðlinda- og umhverfisráðherra kom fram að vísindanefnd um loftslagsbreytingar væri að störfum og skili skýrslu á þessu ári. Lilja bendir á að stofnanir eins og Veðurstofan geti nýtt sér upplýsingar þaðan varðandi hættumat vegna sjávarflóða.

Hún segir ekki síður mikilvægt að taka tillit til þess í skipulagi sveitarfélaga hvernig hækkun sjávarborðs, hlýnun jarðar og bráðnun jökla hefur áhrif á búsetu næstu áratugi. „Á stöðum eins og Eyrarbakka og Stokkseyri er búið að verja. Þeir staðir voru taldir í mikilli hættu. Eins er verið að vinna að því að verja Vík þar sem framkvæmt er fyrir 300 milljónir,“ segir hún.

Víða búið að verja byggðir

Byggðar hafa verið upp sjóvarnir víðar á undanförnum árum, þar á meðal á Álftanesi og vestan Grindavíkur. Lilja segir fleiri staði í mikilli hættu og því brýnt að Minjastofnun fái fjármuni til að vinna aðgerðaáætlun varðandi þá staði. „Það yrði mjög dýrmætt þó að ekki yrðir hægt að verja alla staðina. Þá myndi liggja fyrir yfirlit og upplýsingar.“ Lilja segir kosta rúmar 330 milljónir að skrásetja stöðuna varðandi strandlengjuna. Svo þyrfti að forgangsraða hvar þurfi að verja svo að sjórinn éti ekki upp minjar.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi