Mynd með færslu
04.08.2017 - 11:23.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Milkywhale er dúett þeirra Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur og Árna Rúnars Hlöðverssonar og inniheldur fyrsta plata þeirra tíu dillivænar rafpoppssmíðar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Melkorka, söngkona Milkywhale, er menntuð í danslistinni og segja má að dúettinn sé dansvænn í tvennum skilningi. Fyrir það fyrsta er rafpopp það sem Árni Rúnar teflir hér fram vel nýtilegt ætli fólk að hrista limi og skanka á gólfinu, enda reyndur maður á ferðinni, hafandi stundað slíkt í gegnum FM Belfast í áratug eða lengur. Í annan stað er Milkywhale dansvænn í eiginlegum skilningi danslistarinnar og þar kemur Melkorka sterk inn.

Á tónleikum fangar hún augu áhorfenda með fagmannlegum fettum og brettum á meðan Árni sér um að draga inn eyrun og því um mikla heildarupplifun að ræða. Myndbönd Milkywhale gera dansþættinum sömuleiðis góð skil, listræn bæði og skemmtileg. Hvergi er kastað til höndum í raun, sjá t.a.m. umslagshönnunina sem er vel svöl og stíliseruð.

Norðurlandahamur

Tónlistin er í nokkurs konar Norðurlandaham, Skandipopp er þetta stundum kallað. Gáskafullt en um leið svalt og mér verður hugsað til stjarna eins og hinnar sænsku Veronicu DiMaggio, svo ég gefi dæmi. Platan tikkar í þeim stíl út í gegn en lagasmíðarnar sem og flutningur þeirra er með miseftiminnilegu móti. Melkorka ljær lögunum alla jafna hæfandi rödd; þegar best tekst til samþættir hún blíðu og tilfinningaþrunga, sjá t.d. „Motionless“, hörkusmíð með flottu viðlagi sem Melkorka keyrir vel áfram, í söngröddinni einhver fjarlægð sem passar fullkomlega við. Eins eru „Invisible“ og „Birds of Paradise“ að virka vel, flott popp og „Revelation“ er töff með sinni drungalegu byrjun. Inn á milli eru svo lög sem virka síður. „Immaterial“, „Goodbye“ og „Rhubarb Girl“ t.d.; þar er lítið að frétta og söngur einkennilega stirður. „Animal Kingdom“ er þá tilraun til flipps sem rennur hálfpartinn út í sandinn. Plötunni er hins vegar lokað skemmtilega með „Eclipse“, þar sem gotakór sem hefði gert Sisters of Mercy stolt leiðir mál til lykta.

Flug

Þegar Milkywhale nær flugi er á ferðinni fyrirmyndar Skandinavíupopp, sambærilegt við allt það besta í þeim geiranum en stundum er eins og ramminn/konseptið keyri yfir sjálft innihaldið.