Draumur um stærstu kísilverksmiðju heims úti

08.09.2017 - 19:51
Óvíst er hvort verði af frekari stóriðjuframkvæmdum í Helguvík. Starfsemi kísilverksmiðju United Silicon, sem átti að verða sú stærsta í heimi, hefur verið stöðvuð og félagið er í greiðslustöðvun.

Lengi hafa verið uppi háleitar hugmyndir um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík. Skóflustungur að álveri Norðuráls voru teknar 2008 og þar átti framleiðsla að hefjast 2010. Fyrir hrun þrýstu bæði orkufyrirtækin og ráðamenn á að framkvæmdum yrði hraðað en ekkert varð úr. 

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur lokað á frekari uppbyggingu stóriðju í Helguvík, fyrir utan álver Norðuráls og kísilverksmiðju Thorsil. Starfsleyfi Thorsil stendur og Norðurál hefur fengið öll leyfi til að reisa álver en ólíklegt er að af verði vegna gengis krónunnar og lágs álverðs. 

Það má segja að draumurinn um stærstu kísilverksmiðju heims hafi breyst í martröð. Það hefur hvorki gengið né rekið hjá United Silicon síðan verksmiðja félagsins hóf starfsemi í nóvember í fyrrahaust. Hvert áfallið hefur rekið annað og tækjabúnaður verksmiðjunnar ræður greinilega illa við starfsemina því mengunar verður vart aftur og aftur. Íbúar eru ósáttir og kvörtunum til Umhverfisstofnunar hefur fjölgað stöðugt frá því mengunar varð fyrst vart í nóvember í fyrra. Umhverfisstofnun hefur stöðvað starfsemina í tvígang og gefið United Silicon kost á endurbótum. Eldur hefur minnst þrisvar komið upp og þeir eru fáir eftir sem vilja að verksmiðjan starfi að óbreyttu, hvorki bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ né umhverfisráðherra eða Umhverfisstofnun. 

Nokkur óvissa er um framtíð United Silicion en það er nú í greiðslustöðvun. Forsvarsmenn þess segja að þrátt fyrir erfiðleikana verði áfram starfsemi í verksmiðjunni. Allir 85 starfsmenn haldi vinnunni en þeir sinni aðallega endurbótum þar til ofninn verður ræstur að nýju.