Ekki nóg til heilsugæslu og sjúkrahúsa

14.09.2017 - 09:40
Lítil auking er á framlögum til sérhæfðar sjúkrahúsþjónustu í fjárlögum næsta árs, að mati Henný Hinz, deildarstjóra hagdeildar Alþýðusambands Íslands. Aftur á móti er auking á framlögum til sérfræðilækna. Rætt var við Henný á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Ef við horfum bara á þessi fjárlög þá sýnist mér, svona við fyrstu skoðun, að það sé mjög lítil raun aukning til þessarar sérhæfðu sjúkrahúsþjónustu sem að Landspítalinn fellur undir og í raun og veru til þessa svona opinbera hluta heilbrigðiskerfisins.“ Henný segir aukingu á fjárframlögum til heilsugæslunnar en að miðað við hve mikið hafi verið talað um að hún eigi að vera helsta stoðin í heilbrigðiskerfinu þá hafi framlögin ekki hækkað í samræmi við yfirlýsingar.

Aukin framlög til einkareksturs

Henný bendir á að í frumvarpinu sé að finna aukningu undir liðnum sérfræðilæknar. „Það er þessi einkarekni hluti kerfisins. Þar er nokkur raun auking. Þarna er verið að lýsa ákveðinni stefnu, það er ekki hægt að segja annað.“ Hún bendir á að skoðanakannanir undanfarin ár hafi sýnt fram á að almenningur vilji aukinn stuðning við opinberan rekstur í heilbrigðiskerfinu. Það sé hins vegar ekki raunin í frumvarpinu. 

Hvað öldrunarþjónustu varðar, þá segir Henný að áætlanir um byggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða séu mjög langt frá því sem þörf er á. Heilbrigðismál og öldrunarmál séu þættir sem spili saman. „Við vitum líka að þunginn í þessum málum á eftir að aukast mjög hratt á næstu árum.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Segir lítið mega út af bregða

Tekjustofnar ríkisins hafa veikst undanfarin ár, að sögn Hennýjar. Því sé nú minna svigrúm til útgjalda til velferðarmála. Sé horft fram hjá hagsveiflunni, þá sé rekstur ríkisins í járnum. „Þetta segir í fjármálaáætlun ríkisins. Það má lítið út af bera í rekstrinum til þess að það sé kominn halli á ríkisfjármálin. Seðlabankinn og fleiri stofnanir hafa bent á að í raun og veru sé of lítið aðhald í rekstrinum vegna að slakað hefur verið á í tekjuhliðinni.“

Álitamál hvaða skattar eru lækkaðir

Aðspurð að því hvort tekju- og virðisaukaskattur ætti að vera hærri, segir Henný allta álitamál hvar drepið sé niður í skattkerfinu. „Við getum horft á hvað hefur verið gert undanfarin ár. Auðlegðarskattur hefur verið afnuminn og veiðigjöld lækkuð. Tollar og ýmsir neysluskattar voru lækkaðir og það mátti vel taka til í því kerfi.“ Henný segir líka mega velta því fyrir sér á hvaða tímapunkti slíkt sé gert og hver áhrifin séu á hagstjórn á hverjum tíma og hvernig það skili sér til neytenda. „Skuldalækkun ríkisstjórnarinnar var aðgerð sem jók þenslu á þeim tíma, hvað sem fólki finnst um hana.“

Færri njóta barna- og vaxtabóta

Útgjöld til vaxtabótakerfisins lækka um tvo milljarða og hafa lækkað undanfarin ár, að sögn Hennýjar. „Tekju- og eignamörk hafa haldið sömu stöðlum. Tekjur og eignir hafa hækkað og þá sjálfkrafa hefur fólk dottið út úr kerfinu.“ Henný segir að kaupmáttur hafi vissulega aukist en að barna- og vaxtabætur séu mikilvægar til tekjujöfnunar. Það dragi úr kaupmætti hjá því fólki sem reiðir sig á kerfin og tekjujöfnunin minnki.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Dagný Hulda Erlendsdóttir
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi