Enn brennur Portúgal

11.08.2017 - 01:30
epa06136044 People fight a forest fire near Pisao village, Mealhada, central Portugal, 10 August 2017. More than 319 firemen, 94 land vehicles and six helicopters and planes have been deployed to combat the forest fire.  EPA/PAULO NOVAIS
 Mynd: EPA  -  LUSA
Ríflega 2.600 slökkviliðsmenn börðust við 62 skógar- og gróðurelda í Portúgal á fimmtudag. Klukkan 21 í kvöld að íslenskum tíma, 23 á staðartíma, hafði tekist að hemja 51 þeirra að hluta eða öllu leyti en 11 brunnu enn stjórnlaust. Hlé hefur verið á gróðureldum í Portúgal síðustu daga en enn ein hitabylgjan hefur nú blásið í glæðurnar á ný. Almannavarnir Portúgals vara við því að aðstæður verði sérlega hagstæðar fyrir gróðurelda fram yfir helgi; þurrkur, stífur vindur og hiti allt að 39 stigum.

 

Um 800 slökkviliðsmenn á 250 slökkvibílum hafa glímt við stærsta, einstaka eldinn, sem brennir skóginn í nágrenni bæjarins Abrantes í Mið-Portúgal. Maria do Ceu Albuquerque, bæjarstjóri Abrantes, sagði á fréttamannafundi í kvöld að eldtungurnar væru farnar að svíða gróður og mannvirki við bæjarmörkin og bjóst við afar erfiðri nótt. Íbúar fjögurra nærliggjand þorpa neyddust til að yfirgefa heimili sín vegna eldsins og reykjarkófsins sem af honum liggur. Þurrt loft og hvass vindur gerir slökkviliðsmönnum erfitt um vik og síbreytileg vindátt gerir illt enn verra. 

Almenningur hefur lagt sitt af mörkum við slökkvistörfin og beitt garðslöngum og vatnsfötum óspart. Aðstoð hefur einnig borist frá nágrannaþjóðum í formi heldur stórvirkari slökkvibúnaðar, svo sem flugvéla og þyrla.

Þjóðvegir og járnbrautarspor hafa lokast vegna eldanna, sem hafa sett daglegt líf tuga og jafnvel hundraða þúsunda Portúgala og gesta þeirra úr skorðum í dag. Meðal vega sem loka þurfti var 30 kílómetra kafli á hraðbrautinni milli Lissabon og Portó.

Maður á sjötugsaldri var handtekinn í dag, grunaður um að hafa kveikt einn eldanna sem nú brenna þar syðra. Formaður Landssambands portúgalskra slökkviliðsmanna, Jaime Marta Soares, sagði í sjónvarpsviðtali að hann teldi að rekja mætti upptök gróðureldanna til glæpsamlegs athæfis manna í minnst fjórum af hverjum fimm tilfellum.  

Skógareldar blossuðu einnig upp að nýju á Miðjarðarhafsströnd Frakklands á fimmtudag, eftir nokkurra daga hlé. Um 200 slökkviliðsmenn og áhafnir á sex sérútbúnum slökkviliðsflugvélum börðust þar við elda vestur af Marseille, sem ógnuðu byggð.