Mynd með færslu
21.07.2017 - 15:45.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Kinder Versions er fjórða breiðskífa Mammút og sú fyrsta sem sveitin gefur út í gegnum hina öflugu útgáfu Bella Union. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég man það eins og það hafi gerst í gær er Mammút sigraði Músíktilraunir árið 2004 og var engin spurning hver hreppa skyldi hnossið í það sinnið. Útgeislun Katrínu Mogensen sem og allra meðlima var smitandi og það var hreinlega einhver galdur sem skilaði þeim fyrsta sætinu. Mammút hefur síðan þá verið ein af okkar helstu rokksveitum, stöðugt að í gegnum hljómleikahald sem og plötuútgáfu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mammút eftir sigurinn í Músíktilraunum 2004

Ása Dýradóttir tók við bassanum af Guðrúnu Ísaksdóttur áður en önnur platan, Karkari (2008) kom út og sama liðskipan hefur verið í sveitinni síðan. Þessi sterka heild og vinátta sem einkennir hljómsveitina (sem maður verður var við t.d. í gegnum samfélagsmiðla) er eitthvað sem er síst gefið í þessum fræðum en ábyggilega stór þáttur hvað árangur Mammút varðar, sem er nú með samning við Bella Union sem er eitt helsta og virtasta óháða útgáfufyrirtæki Bretlands með listamenn eins og John Grant, Beach House, Father John Misty, Laura Veirs og Susanne Sundfør á sínum snærum.

Megnug

Sígandi lukka er best og það á ekki síst við um plötur Mammút. Fyrstu tvær, Mammút (2006) og Karkari (2008) voru um margt ójafnar en sveitin sýndi loks hvers hún var megnug á Komdu til mín svarta systir (2013). Mikilúðlegt verk og „fullorðins“. Það var svo nokkuð ljóst að þessi plata hér yrði að vera negla. Plata sem er ætluð fyrir alþjóðamarkað (allir textar á ensku í fyrsta sinn) með tilheyrandi dreifingu og kynningu. Mammút er búin að byggja upp aðdáendahóp erlendis að einhverju leyti og því pressa í gangi.

Það er list að raða plötum upp; hvernig á að opna þær, hvernig á að láta þær flæða o.s.frv.. Það er því ansi glúrið hérna að platan er ekki opnuð með Bítlabrellunni (George Martin setti alltaf brjálaða slagara sem upphafslög) heldur er byrjað á óvæntu útspili. Og næstu lög á eftir eru í þyngri kantinum. Hugsunin: hlustandinn þarf að vinna fyrir þessu. Fyrsta lagið, „We Tried Love“ er tæplega átta mínútna langt, feitt og hjúpandi, byrjar með þungri, U2-legri undiröldu (mér verður hugsað til b-hliðanna í kringum Unforgettable Fire og Joshua Tree sem voru oft hlaðnar með Brian Eno hljóðheimaæfingum) en svo er skipt harkalega í nokkurs konar vals. Snilld! Dramatískt nokk og epískt, níunda áratugs blær (Cocteau Twins) og Katrína ber lagið glæsilega með tilfinningaþrungnum söng. Næsta lag er titillag plötunnar, þungu undirstreymi er viðhaldið og lagið grúvar í nettum Can-anda; er minimalískt, myrkt og gotneskt. Ekkert lát er á því að gefa fólki „ekki“ það sem það vill því þriðja lagið, „Bye Bye“, er meira eins og millistef, draugalegt og nánast ekkert nema vélræn söngrödd.  Hugrakkt útspil en loks við fjórða lag, „The Moon Will Never Turn On Me“, er platan opnuð upp á gátt. Góður, ýlfrandi gítar og sniðið á laginu er „leikvangalegt“. Eiginlega eins og yfirlýsing: „Við erum mætt“. Níunda áratugs gotablærinn er þokkafullur hérna, svona eins og The Edge hafi verið að spila undir hjá Siouxsie Sioux. Líka sögu er að segja af „Breathe Into Me“, skotheldur slagari líkt og fyrirrennarinn. Platan heldur áfram að rúlla örugglega á þennan háttinn, „What‘s Your Secret“ kallast t.a.m. á við titillagið, grúvandi síðpönk, Killing Joke í döbbútgáfu.

Slauffað

Plötunni er síðan slauffað með „Sorrow“ sem minnir pínulítið á seinni plötu Of Monsters and Men sem var svona hæfilega dökkleit. Ólíkar sveitir, sannarlega, og þó? Báðar hafa hug á meistaradeildinni, önnur spilar þar nú á meðan hin leggur hér fram giska ákveðna kröfu þar um. Dómar um Kinder Versions eru farnir að detta inn í hús erlendis frá og eru nánast allir á einn veg, platan mærð og lofuð á alla kanta. Ég er ekki hissa.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kinder Versions

Tónlist

Einfaldara, harðara og mun þyngra

Tónlist

Söngur sem vefur sig um hlustandann

Popptónlist

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu