Fjölskyldur eiga rétt á útskýringum

30.08.2017 - 05:52
Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty International
Mannréttindasamtökin Amnesty krefjast þess að stjórnvöld í Nígeríu rannsaki óútskýrð mannshvörf í landinu. Benda samtökin sérstaklega á hvarf um 600 sjíta-múslima sem ekkert hefur spurst til.

Amnesty sendir nígerískum yfirvöldum kröfuna í dag, á alþjóðadegi fórnarlamba mannshvarfa. Yfirvöld eru hvött til að rannsaka mannshvörfin og draga þá sem grunaðir eru til ábyrgðar. Samkvæmt tölum frá múslimahreyfingunni IMN er ekkert vitað um afdrif rúmlega 600 manna úr hreyfingunni. Yfir 350 IMN-fólks var drepið í átökum við stjórnarherinn í bænum Zaria í desember árið 2015. IMN hefur lent í ítrekuðum átökum við nígerísk stjórnvöld undanfarin ár. Hreyfingin sækist eftir að boða íslamska byltingu í norðurhluta Nígeríu.

Amnesty segir unga drengi einnig eiga það til að hverfa í landinu. Er stjórnarherinn sagður taka þá og saka um að vera í tygjum við hryðjuverkasamtökin Boko Haram. Hundruð almennra borgara hafi svo horfið í norðaustur-hluta landsins þar sem Boko Haram hefur herjað síðustu ár. Fjölda annarra sé haldið í leynilegum fangabúðum að sögn Amnesty. Samtökin segja ættingja fórnarlambanna eiga rétt á því að vita hvað varð um þau. Fjölskyldur þeirra verðskuldi réttlæti og sannleikann.

Auk Nígeríu beinir Amnesty sjónum sínum að Sýrlandi. Þau segja að sýrlensk stjórnvöld og vopnaðar sveitir verði að greina frá því hvar finna megi þær tugir þúsunda sem hafa horfið eða hefur verið rænt frá því stríðsátök hófust í landinu fyrir sex árum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV