Fréttir af Íslandsferð Trumps bornar til baka

15.01.2017 - 06:39
epa05711773 US President-elect Donald Trump looks out at the press during a press conference in the lobby of Trump Tower in New York, New York, USA, 11 January 2017.  EPA/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA
Ekkert er hæft í fréttum um að Donald Trump, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta á föstudaginn, ætli að funda með Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, í Reykjavík, innan nokkurra vikna frá embættistöku sinni. Tíðindamenn Reuters-fréttastofunnar hafa þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum í herbúðum Trumps.

Á forsíðu breska blaðsins The Sunday Times, sem út kemur í dag, er fullyrt að Trump og hans fólk hafi þegar tjáð breskum ráðamönnum að erindið í fyrstu utanlandsferð næsta Bandaríkjaforseta verði fundur með rússneskum kollega hans á hlutlausum vettvangi.

Ísland og höfuðborg þess, Reykjavík, séu efst á lista þeirra yfir mögulega fundarstaði, vegna hagstæðrar legu landsins og hins sögulega samhengis, en þar er vísað til leiðtogafundarins í Höfða 1986, þegar þeir Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatjev ræddust við. Hermt er að áframhaldandi fækkun kjarnavopna hafi átt að vera eitt helsta efni fundar Trumps og Pútíns.

Reuters-fréttaveitan hefur eftir ónefndum heimildarmönnum, sem sagðir eru úr innsta hring Trump-teymisins, að þessar fréttir eigi ekki við rök að styðjast. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV