Gamanleikarar eru flakandi sár

Edda Björgvinsdóttir
 · 
Kvikmyndir
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Undir trénu
 · 
Menningarefni

Gamanleikarar eru flakandi sár

Edda Björgvinsdóttir
 · 
Kvikmyndir
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Undir trénu
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
12.09.2017 - 14:55.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin
„Þetta var eins og að fá allar jólagjafir heimsins á einu bretti, þetta var svo mikil gjöf,“ segir Edda Björgvinsdóttir leikkona um hlutverk sitt í kvikmyndinni Undir trénu, sem frumsýnd var í síðustu viku.

Myndin hefur fengið lofsamlega dóma bæði á Íslandi og og erlendis, ekki síst fyrir frábæra frammistöðu Eddu. Myndin er harmræn og það var djarft teflt hjá Hafsteini Gunnari Sigurðssyni leikstjóra að velja eina ástsælustu gamanleikkonu þjóðarinnar í hlutverk þunglynda alkóhólistans Ingu, sem er þungamiðjan í atburðarásinni.

„Þurfti að fara í allan minn harm“

„Mér fannst þetta mjög flott hjá honum og líka viska því það er víða sem gamanleikurum er einmitt treyst fyrir dramatískum hlutverkum því - og ég veit að það er asnalegt að segja þetta - eru meira á dýptina. Ég held að það sé vegna þess að við erum alltaf í  hálfgerðri lífshættu. Maður þarf alltaf að gefa allt og þegar það er ekki hlegið er manni hafnað svo rosalega. Við erum dálítið flakandi sár. Eða þetta er mín kenning, að þess vegna séum við tilbúin að fara dýpra,“ segir Edda í viðtali við Bergstein Sigurðsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Undir trénu
Edda í hlutverki alkahólistans Ingu í Undir trénu

Edda segir nokkurn mun á því hvernig hún nálgaðist þetta hlutverk og önnur sem hún hefur leikið. „Í gamanleik er svo mikil hrynjandi í leik sem skiptir máli, gamanleikur er svo mikið viðbragð, en þarna þurfti ég að fara í allan minn harm. Maður fer alltaf í tilfinningabanka. Öll lendum við í áföllum og ég dvaldi í því á meðan þessum tökum stóð.“  

Siglir inn í nýtt tímabil

Það er nóg að gerast hjá Eddu um þessar mundir. Á laugardag verður sérstök afmælissýning á Stellu í orlofi í Bíó paradís og þá er hún önnum kafinn við að æfa í nýju leikriti eftir Ragnar Bragason, Risaeðlurnar, sem sýnt verður í Þjóðleikhúsinu. Þar leika þau Pálmi Gestsson sendiherrahjón og gerist verkið í móttöku á þeirra vegum.

„Þetta er mjög óvenjulegt í rauninni því nú er það bara þannig að konur - og konur á mínum aldri - það er ekki eins og það sé allt vaðandi í hlutverkum. Og ég sé alveg án biturðar, að þetta er svo mikill lottóvinningur, miklar gjafir að fá með stuttu millibili, fyrst þessi mynd og svo þetta leikrit sem er svo gaman að leika.“

Edda segist upplifa sig á vatnaskilum og sé að sigla inn í nýtt tímabil á ferlinu. „Enn eina ferðina. Á sínum tíma sagði ég upp samningi og ákvað að vera „free-lance“. Þá lendir maður í því að þurfa að berjast fyrir því að hafa nóg að gera. Allt í einu er maður alls staðar, hvort sem fólki líkar betur eða verr, og þess á milli þarf maður að hafa mikið fyrir því að hafa í sig og á. Þannig að enn einu sinni segi ég: Takk, takk fyrir að taka mig í fangið.“  

Rætt var við Eddu í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.