Gerir lítið úr því sem þolendur hafa áorkað

08.09.2017 - 20:03
Kona sem sætti langvarandi kynferðisofbeldi af hálfu stjúpföður síns þegar hún var barn, segir að með því að veita barnaníðingum uppreist æru geri stjórnvöld lítið úr upplifun þolenda kynferðisofbeldis, og baráttu þeirra fyrir réttlæti. Hún segir að það sé eins og brot mannsins hafi verið strokuð út, en ekkert hafi verið strokað út hjá henni.

Hjalti Sigurjón Hauksson var árið 2004 dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir gróf og ítrekuð brot gegn stjúpdóttur sinni. Brotin stóðu yfir á tólf ára tímabili, frá því stúlkan var um það bil fimm ára. Hjalti fékk uppreist æru í fyrra.

Ofbauð vinnubrögð stjórnvalda

Dómsmálaráðuneytið hefur neitað að veita upplýsingar um hverjir hafa sótt um og fengið uppreist æru. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um mál annars dæmds barnaníðings, Roberts Downey, sem fékk uppreist æru sama dag og Hjalti, birti ráðuneytið lista yfir fjölda þeirra sem fengið hafa uppreist æru frá 1995. Þar kom fram hvaða lagagreinar viðkomandi gerðust brotlegir við, hversu þunga dóma þeir hlutu, hvaða ár var sótt um uppreist æru og hvaða dag uppreist æru var veitt eða af hverju henni var synjað. Nöfn umsækjenda voru ekki birt.

Samkvæmt listanum eru  sex nauðgarar, þrír barnaníðingar og þrír morðingjar á meðal þeirra 32 sem hafa fengið uppreist æru frá 1995. Hjalti er þar sá sem hlaut þyngsta dóminn, fyrir utan þá sem hlutu dóm fyrir manndráp eða morð.

Konan, sem kemur fram undir nafnleynd vegna barna sinna, segist aldrei hafa órað fyrir því að Hjalti fengi uppreist æru. Hún frétti fyrst af því frá blaðamanni sem hafði samband við hana eftir að listinn var birtur. Hún segir að það hafi verið áfall að heyra að Hjalti hefði fengið uppreist æru, og gagnrýnir stjórnvöld sem standi fyrir slíku. „Mér leið eins og ég hefði orðið sjö sinnum undir valtara. Varð dofin og máttlaus.“ 

Sannleiksgildi gagna ekki kannað

Dómsmálaráðuneytið hefur neitað að afhenda gögn um uppreist æru tiltekinna einstaklinga, svo sem afrit af umsókn, rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að umsækjandi uppfylli skilyrði uppreist æru og nöfn þeirra einstaklinga sem skiluðu inn umsögn um góða hegðun umsækjenda, og segir gögnin innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í síðustu viku að dómsmálaráðuneytið rannsaki ekki sannleiksgildi umsókna eða umsagna vegna þeirra. Gögnum sem berist til ráðuneytisins sé tekið sem sönnun fyrir góðri hegðun þar til annað komi í ljós. Þá sagði hún að ráðherrum hafi ekki verið léttvægt að taka ákvörðun í ákveðnum málum. Eftir ítarlega og margendurtekna skoðun innan ráðuneytisins hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra sé ekki heimilt að teknu tilliti til stjórnsýslureglna að undanskilja umsóknir vegna ákveðinna brota. Þetta hafi legið þungt á ákveðnum ráðherrum en þeir síðan ákveðið að bregða ekki út frá þeirri hefð sem hefur myndast að veita uppreist æru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Konan ákvað að ræða við fjölmiðla vegna þess að henni ofbauð vinnubrögð stjórnvalda, ábyrgðaleysi og takmörkuð svör. „Mér ofbýður að það séu engar útskýringar og það sé enginn rökstuðningur á bak við þetta nema að þetta séu bara ákveðnir verkferlar sem að stjórn landsins vinnur eftir.“

„Mér finnst hræðilegt að heyra að þetta sé svona vélrænt, og mér finnst líka hræðilegt að fólk sé að skrifa undir á móti sinni sannfæringu, og þetta er fólkið sem við treystum til að stjórna landinu.“ Hún segir löngu tímabært að breyta ferlinu. „Það þarf meðmæli, til að sækja um svona, og það getur verið hver sem er, og það er nafnleynd yfir þessu öllu. Þetta er náttúrulega bara löngu úrelt og ég held að þetta tíðkist ekki í neinum öðrum löndum, að það sé svona ofboðsleg leynd í kringum þessa glæpamenn. Og ég held að það sé bara einróma meðal samfélagsins að þetta má ekki líðast. Og það er eiginlega ástæðan fyrir því að mér fannst ég þurfa að segja mína skoðun. Ekki bara fyrir mig heldur alla aðra. Af því að þetta er ekki boðlegt.“ 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í viðtali við RÚV í sumar að ákvörðunin um uppreist æru væru ekki hans. „Þegar ákvörðunin í ráðuneytinu kemur á mitt borð til formlegrar staðfestingar þá fylgir enginn rökstuðningar, engin fylgiskjöl, engin greinargerð, engar upplýsingar um þann sem sækir um, engar upplýsingar um þau afbrot sem hann framdi, heldur er þetta lokaskref á ferlinu, staðfesting forseta, sem er reyndar arfur frá liðinni tíð þegar forseti hafði miklu meiri völd en hann hefur núna,“ sagði Guðni. „Ég bið bara um að fólk sýni því skilning að þótt það segi að forminu til að forseti geri hitt og þetta þá er það bara ekki þannig í stjórnskipaninni.“

Á skilið að fá útskýringu

Konan segist vilja vita rökstuðning yfirvalda fyrir því að veita dæmdum barnaníðingum uppreist æru. „Ég hefði viljað vita þetta augliti til auglitis. Þetta er það stór ákvörðun og þetta hefur áhrif á fleiri en bara þann sem fær þessa viðurkenningu, mér finnst þetta ekkert annað en viðurkenning fyrir hann, og ég vil bara fá að heyra útskýringuna og rökstuðninginn augliti til auglitis. Mér finnst ég alveg eiga það skilið.“

Hún segir ákveðinn létti hafa fylgt því þegar Hjalti var nafngreindur opinberlega. Þar með sé hún ekki ein að burðast með vitneskjuna um það sem hann gerði. Hún segist skilja upp að vissu marki möguleikann á uppreist æru afbrotamanna, en þá þurfi ákveðin iðrun og yfirbót að eiga sér stað. Svo sé ekki raunin með Hjalta. Fyrir dómi neitaði Hjalti ávallt sök, en dómurinn mat framburð hans ótrúverðugan og brot hans fullsönnuð. Í dóminum kemur einnig fram að Hjalti hafi reynt að fá konuna til að breyta framburði sínum fyrir dómi. Hann lagði hart að henni að segja að hún hefði verið yngri þegar brotin voru framin, svo að hann fengi vægari dóm. 

Í fyrra ók Hjalti skólabíl hjá grunnskóla dóttur konunnar. Hann gaf sig sérstaklega á tal við stúlkuna, kallaði á hana með nafni og bað hana að sitja fremst í bílnum hjá sér. Konan segir að sér hafi verið verulega brugðið þegar hún sá Hjalta undir stýri á skólarútunni. Eftir ábendingu frá fjölskyldunni til rútufyrirtækins, Teits Jónassonar, var Hjalti rekinn frá störfum. Þetta var um svipað leyti og hann lagði fram umsókn um uppreist æru. Þá hefur hann ítrekað sent konunni skilaboð og hringt í hana, síðast nú í vikunni. Ekkert af þessu var skoðað við afgreiðslu á umsókn hans um uppreist æru.

„Ég skil að vissu leyti með uppreist æru þegar viðkomandi hefur iðrast og beðist fyrirgefningar og sýnt töluverðar betrumbætur í sínu fari. En ég skil það ekki þegar það er ekkert kannað. Þetta væri réttlætanlegt ef að það væri fagfólk í nefnd, og allar aðstæður væru skoðaðar, og viðkomandi þyrfti að sitja í viðtölum og svara fyrir, en þetta virðist vera bara svona vélrænt og vitandi af þessu háttsetta fólki að skrifa undir á móti sinni sannfæringu, finnst mér bara alveg fráleitt.“

„Búið að stroka þetta út“

Með því að veita barnaníðingum uppreist æru geri stjórnvöld lítið úr upplifun þolenda kynferðisofbeldis, og baráttu þeirra fyrir réttlæti. „Þetta gerir lítið úr öllu því sem við höfum áorkað, að koma fram og kæra og segja frá og ganga í gegnum réttarhöld. Það er ekkert smá mál. Og þegar hann hlýtur þennan dóm, það var viss viðurkenning frá samfélaginu um að þetta hefði í raun gerst, mér finnst bara verið búið að gera lítið úr því. Það er búið að stroka þetta út. Sem er fáránlegt því það hefur ekkert verið strokað út hjá mér.“