Góð staða á breskum vinnumarkaði

13.09.2017 - 11:14
Atvinnulíf · Erlent · Bretland · Brexit · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Atvinnuleysi í Bretlandi er 4,2 prósent um þessar mundir og hefur ekki verið minna í 42 ár. Í frétt frá hagstofunni í Lundúnum kemur fram að í lok júlí hafi fjórtán hundruð og sextíu þúsund verið skráðir atvinnulausir. Það eru 175 þúsundum færri en á sama tíma í fyrra.

Launavísitalan í Bretlandi helst hins vegar ekki í hendur við verðbólgu í landinu. Verðbólga var 2,9 prósent í júlí miðað við heilt ár, en launavísitalan var 2,1 prósent frá maíbyrjun til júlíloka. Þetta þýðir að sögn hagstofunnar að laun í landinu drógust saman um 0,4 prósent.

Staðan á vinnumarkaði þykir merkilega góð að mati efnahagssérfræðinga þegar tillit er tekið til óvissunnar sem Brexit hefur skapað. Launalækkunin telja þeir að leiði til þess að neysla dragist saman.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV