Mynd með færslu
28.07.2017 - 08:22.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Söngvar um helvíti mannanna með Ham er straumlínulagaðra verk en síðasta hljóðversplata en viðheldur þeirri rokksköddun sem þessi besta hljómsveit í heimi er landskunn fyrir. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

„Þá er það ljóst. Ham er besta hljómsveit í heimi,“ voru lokaorð mín í dómi um síðustu hljóðversplötu rokksveitarinnar Ham; Svik, harmur og dauði, sem út kom árið 2011. Það má alveg greina kerskni í svona yfirlýsingum en ég held að margir – sérstaklega samaðdáendur – greini mun betur hreinan og tæran sannleika í þessum orðum. Ást mín á þessari sveit kann sér í raun engin takmörk, hún er mér gríðarlega mikils virði, hefur á mér tak sem erfitt er að útskýra í fallvöltum orðum. Ég veit að margir sem þetta lesa tengja sterkt.

Skynsamlegt

Svik, harmur og dauði var STÓR plata, þung, epísk og mikilúðleg. Ham velja, skynsamlega, að búa ekki til framhaldsplötu af því glæsta verki heldur leika sér með formið. Hljóðheimur Ham er mjög einkennandi og skýrt skilgreindur og pláss til mikillar tilraunastarfssemi naumt, þannig séð, en Ham tekst þó að gera plötu sem hljómar nákvæmlega eins og Ham en er samt allt, allt öðruvísi en síðasta verk (OK, kannski ekki allt, allt öðruvísi en þið skiljið...).

Söngvar um helvíti mannanna (frábær titill) er straumlínulagaðra verk en síðasta plata; drungi og dulmögn víkja fyrir hreinskiptni og hráleika. S. Björn Blöndal, bassafanturinn eini og sanni, trúði mér fyrir því að Ham hafi lengi langað til að vera nýbylgjurokksveit og má líta á þessa plötu sem nokkurs konar atrennu að því. „Þú lýgur“ t.d. er opnað með klingjandi, hvössum gíturum og er keyrt áfram, er hratt og hrátt og minnir í því samhengi á lög eins og „Auður Sif“ eða „Svín“ fremur en drungaópusa seinni tíma Ham. Lögin eru alls tíu, og meira en minna í þessu formi. Þessi yfirmáta dramatík sem var rauði (rauðsvarti?) þráðurinn í Svik, harmur og dauði víkur fyrir um margt einfaldari en ekki síður áhrifamikilli hanteringu.  Ham rokkar, Ham er alvöru en Ham er líka sprenghlægileg og grínaktugheitin eru alltaf skammt undan líka (lög heita t.d. „Gamli maðurinn og asninn“, „Ég senn dey“ og „Morðingjar“) og í einu lagi bregða menn fyrir sig sjóaralegu „ræræræ“ eins og ekkert sé eðlilegra.

Ánægja

Ég er ánægður með að mínir menn láta sér ekki nægja að spila slagara út í eitt á tónleikum – og af þeim eiga þeir nóg – heldur slá þeir einnig hressilega í sköpunarklárinn við og við eins og merkja má á þessu verki. Megi þeir stunda sína níðþungu þeysireið lengi vel.

Tengdar fréttir

Tónlist

Firnasterkt nýbylgjurokk

Tónlist

Einfaldara, harðara og mun þyngra

Tónlist

Söngur sem vefur sig um hlustandann

Popptónlist

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu