Heilu landshlutarnir verði eitt sveitarfélag

13.09.2017 - 21:21
„Ég sé fyrir mér að Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði hvert um sig sterk sveitarfélög þar sem horft er á hagsmuni allra íbúa við stjórnun,“ sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann sagði mörg lítil en samt þyrftu þau að standa við sömu skuldbindingar og mun stærri sveitarfélög.

Benedikt velti eins og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, fyrir sér hvernig Ísland yrði í framtíðinni en leit einnig til baka og rifjaði upp þá ákvörðun Íslendinga að taka þátt í EES-samstarfinu. Þetta hefði breytt miklu. Tvö prósent landsmanna hefðu verið erlendir ríkisborgarar árið 1992, fimm prósent um aldamót, tíu prósent 2007 og nú fjórtán prósent. „Einn af hverjum sjö landsmönnum er fæddur erlendis. Hvernig verður það árið 2050. Verður það þá fjórðungur eða helmingur. Og hvaða áhrif hafa slíkar breytingar á samfélagið?“

Íslendingar eru um margt frjálslynd þjóð þó þeir hafi ekki alltaf verið það sagði Benedikt og vísaði til breyttra viðhorfa Íslendinga til fólks út frá kynhneigð. Hann sagði jákvætt að fólk líti á Ísland sem land tækifæranna, opið og frjálslynt land.

Okkur ber að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum sagði Benedikt. „Okkur ber að því að stuðla að minnkandi notkun mengandi orkugjafa,“ sagði Benedikt og kvað að ekki mætti láta stjórnast af skammtímahagsmunum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV