Hlutabréf í rafbílaverksmiðjum hækkuðu

11.09.2017 - 16:13
Erlent · Asía · Kína · Umhverfismál · Viðskipti
epa06197619 An electric car connects to a charging pole for electric vehicles at an electric vehicle charging station outside an apartment in Beijing, China, 11 September 2017. China plans to ban cars powered by fossil fuels in the future, while promoting
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða rafbíla og rafhleðslur hækkuðu á mörkuðum í Asíu í dag eftir að stjórnvöld í Kína tilkynntu að bensín- og dísilbílar yrðu bannaðir. Vestrænar bílaverksmiðjur hafa gert samninga um framleiðslu rafbíla í Kína, stærsta bílamarkaði heims.

Xin Guobin ráðherra iðnaðar og upplýsingatækni í Kína upplýsti um helgina að verið væri að vinna að tímaáætlun um hvernig banni við dísilbílum og bensínbílum yrði hrint í framkvæmd. 28 milljónir bíla voru framleiddar í Kína í fyrra. Það er um þriðjungur af öllum bílum sem smíðaðir eru í heiminum ár ári hverju.

Ráðherrann segir að aðgerðin eigi eftir að gerbreyta umhverfismálum í Kína og gefa kínverskum iðnaði ný sóknartækifæri. Þá dragi stórlega úr eftirspurn eftir olíu. Bandaríkin er eina ríkið sem notar meiri olíu en Kína.

Hlutabréf hækkuðu um rúm 4 prósent  í dag í  fyrirtækjum sem tengjast rafbílavæðingu í Kína, meðal annars í JAC motors sem gert hefur samning við Volkswagen verksmiðjurnar um framleiða 100 þúsund rafbíla á ári. Bílaverksmiðjurnar Renault-Nissan, Ford og General Motors vinna allar að því að þróa rafbíla í Kína.

Kínverjar sem nú eiga Volvo bílaverksmiðjurnar í Svíþjóð segja að allir nýir Volvobílar verði knúnir með rafmagni eftir rúmt ár, - frá og með árinu 2019. - Kínverjar gera sér vonir um að selja eina milljón rafknúinna Volvobíla fyrir árið 2025.

Gripið hefur verið til aðgerða gegn dísilbílum eða þær boðaðar til þess að draga úr skaðlegri loftmengun í fjölda stórborga víða um heim, meðal annars í París, Lundúnum og Osló. Stjórnvöld í Bretlandi og Frakklandi hafa ennfremur tilkynnt að þau ætli að banna alla dísilbíla og bensínbíla fyrir árið 2040.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV