Hvernig breyttist framburður Thomasar?

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Thomas Møller Olsen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, gjörbreytti frásögn sinni af því hvað gerðist aðfaranótt laugardagsins 14. janúar, nóttina sem Birna hvarf. Þótt yfirheyrsluskýrslur yfir Thomasi hjá lögreglu liggi ekki fyrir gefa gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir honum greinargóða mynd af því hvernig saga Thomasar var, áður en aðalmeðferð hófst.

Thomas var yfirheyrður nokkrum sinnum fyrstu dagana eftir að hann var handtekinn en fljótlega eftir það neitaði hann að tjá sig við lögreglu, eins og kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir honum.

Viðurkenndi að hafa kysst Birnu

Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá 2. febrúar kemur fram nokkuð greinargóð mynd af því sem lögreglan taldi vera frásögn Thomasar af því hvað gerðist aðfaranótt laugardagsins 14. janúar, nóttina sem Birna hvarf. 

Thomas kannaðist til að mynda við að hafa fengið Birnu Brjánsdóttur upp í rauða Kia Rio-bílinn sem hann hafði á leigu. Hann þekkti hana af myndum sem lögreglumenn sýndu honum og viðurkenndi að hafa kysst hana. Skipverji af Polar Nanoq, sem gaf skýrslu fyrir dómi á mánudag, sagði Thomas hafa greint sér frá því að hann hefði kysst konu í bílnum. „Hann sagði ekki hvar en hann sagðist hafa kysst hana,“ sagði skipverjinn. 

Thomas greindi lögreglu frá því að tvær stúlkur hefðu komið upp í bílinn í miðbæ Reykjavíkur. Þau hefðu ekið að grænlenska togaranum Polar Nanoq sem lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn og þar hafi Nikolaj Olsen, hinn skipverjinn, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins, farið út úr bílnum. Hann hefði ekið með stúlkurnar á annan stað á höfninni og farið aftur í farþegasætið til stelpnanna. Eftir nokkra stund hefði hann síðan ekið að hringtorgi, líklega Ástorgi í Hafnarfirði, að ósk stúlknanna og þar hefðu þær farið út úr bílnum.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Nikolaj Olsen kemur fyrir Héraðsdóm Reykjaness á mánudag.

Í vitnisburði sínum fyrir Héraðsdómi Reykjaness á mánudag hafði þessi saga Thomasar tekið miklum breytingum og var raunar allt önnur. Aðeins ein stelpa hefði komið inn í bílinn á Laugaveginum og hann vildi ekki, ólíkt því sem hann gerði í fyrstu yfirheyrslunum hjá lögreglu, kannast við að það hefði verið Birna.

Önnur veigamikil breyting á frásögn Thomasar er varðandi hvað átti sér stað við golfskála Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs við Vífilsstaði þar sem bíllinn sést á eftirlitsmyndavélum.

Þar segir hann að Nikolaj hafi óskað eftir því að eiga prívatstund með stúlkunni í bílnum. Hann hafi ákveðið að láta þetta eftir Nikolaj og farið út að pissa en síðan séð hvar Nikolaj og stelpan keyrðu burtu. „Ég veit ekki hversu langur tími leið en þegar hann [Nikolaj] kom aftur var hann einn,“ sagði Thomas fyrir dómi á mánudag og lýsti Nikolaj sem stressuðum eftir bíltúrinn. Ekkert af þessu kom fram í fyrstu yfirheyrslunum yfir Thomasi hjá lögreglu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Kolbrún Benediktsdóttir (t.h) í Héraðsdómi Reykjaness.

Thomas sagði fyrir dómi að vitnisburður hans núna væri réttur og sannur og að hann vissi núna að það hefði bara verið ein stelpa í bílnum. Eftir að honum hefði verið sleppt úr einangrun og fengið sálfræðiaðstoð, hefði nóttin rifjast betur upp fyrir honum.  

Þegar Nikolaj var spurður að því fyrir dómi hvort hann hefði getað keyrt bílinn eins og Thomas gaf í skyn sagðist hann ekki vera með ökuréttindi og hann hefði aldrei farið í ökuskóla. „Ég myndi ekki reyna keyra bíl svona fullur. Ef ég hefði keyrt svona fullur þá hefði ég sennilega lent í slysi.“ 

Thomas  var handtekinn um borð í Polar Nanoq miðvikudaginn 18. janúar og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan fimmtudaginn 19. janúar. Honum var gert að sæta einangrun í sex vikur vegna rannsóknarhagsmuna og verjandi hans gagnrýndi þessa löngu einangrunarvist í Vikulokunum á Rás 1 í lok febrúar. „Ég [...] hef ekki séð þá rannsóknarhagsmuni í málinu sem mæla með því að hann sæti einangrun,“ sagði Páll Rúnar M. Kristjánsson.

Með framburði Thomasar var sleginn ákveðinn tónn í málsvörn hans - að gera Nikolaj grunsamlegan.

Þegar rannsóknarlögreglumenn komu fyrir dóminn spurði verjandi hans meðal annars af hverju það hefðu ekki verið tekin fingraför af Nikolaj í ljósi þess að hann sat þá í gæsluvarðhaldi, grunaður í málinu. Og af hverju Nikolaj hefði ekki verið spurður út í áverka sem hann var með á hnúum vinstri handar.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar

Leifur Halldórsson, rannsóknarlögreglumaður, sagði í vitnisburði sínum fyrir dómi að Nikolaj hefði meðal annars verið útilokaður frá málinu vegna fyrri framburðar Thomasar.

Thomas hefði sjálfur sagt að Nikolaj hefði farið um borð í Polar Nanoq að morgni laugardagsins 14. janúar en að hann sjálfur hefði keyrt með tvær stelpur út á enda hafnarinnar og loks skutlað þeim að hringtorgi í Vallarhvarfi þar sem þær hefðu farið út úr bílnum. Leifur sagði að þegar Nikolaj sjáist á eftirlitsmyndavélum koma út úr bílnum og fara um borð í grænlenska togarann hafi það sagt lögreglu - á grundvelli framburðar Thomasar sjálfs - að Birna hefði verið heil á húfi á þeim tíma.

Leifur gat þó ekki svarað því af hverju lögreglan hefði ekki spurt Nikolaj út í áverkana sem hann var með á vinstri hendi. „Ég man ekki til þess að hann hafi verið spurður út þá,“ sagði Leifur í vitnisburði sínum og játti því, eftir að verjandi Thomasar gekk á hann, að það hefði verið full ástæða til þess.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Urs Wiesbrock ræðir við túlkinn sinn, Magnús Diðrik Baldursson.

Urs Wiesbrock, þýskum réttarmeinafræðingi, var falið að svara nokkrum spurningum sem verjandi Thomasar lagði fyrir hann, meðal annars hvort hægt væri að sjá hvort árásarmaðurinn hefði verið rétthentur eða örvhentur. Við skýrslutöku yfir Nikolaj kom fram að hann er örvhentur en Wiesbrock komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að svara þeirri spurningu með óyggjandi hætti. 

Enn sem komið er hefur Thomas ekki getað svarað því hvernig blóð úr Birnu komst á úlpu hans og af hverju fingrafar hans fannst á ökuskírteini Birnu. Verjandi Thomasar hafði þó efasemdir um fingrafararannsóknina og í skýrslutöku af íslenskum fingrafarasérfræðingi kom fram að hann hefði metið fingrafarið sem fannst á ökuskírteininu ósamanburðarhæft. Það hefði aldrei gerst á hans ferli að óskað hefði verið eftir öðru áliti á fingrafararannsókn.

Fingrafarið sem fannst var rannsakað af norskum sérfræðingum hjá norsku lögreglunni, Kripos, og þeirra niðurstaða var sú að eina fingrafarið sem var nothæft samsvaraði fingrafari á vísifingri hægri handar Thomasar.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Fjölmiðlar hafa sýnt réttarhöldunum mikinn áhuga.

Thomas hefur sömuleiðis ekki gefið neinar skýringar á því hvers vegna DNA úr honum fannst á skóm Birnu og hann hélt því fram í skýrslutöku sinni að hann hefði ekki tekið eftir neinu blóði í bílnum. Þegar hann sjáist þrífa rauða Kia Rio bílinn á upptökum úr eftirlitsmyndavélum hafi hann verið að þrífa upp ælu. Þetta er raunar eitt af fáum hlutum sem eru í samræmi við þær skýringar sem Thomas gaf í fyrstu yfirheyrslum hjá lögreglu, eins og lesa má um í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum frá 30. mars.

Sérfræðingar lögreglunnar, sem komu fyrir dóminn í gær, voru báðir sammála um það í vitnisburði sínum að það hefði verið mikið blóð sjáanlegt í bílnum, bæði með berum augum en líka eftir að bílinn var lýstur upp að innan með lúmínol-vökva. Rannsókn lögreglu hefði sömuleiðis leitt í ljós að reynt hefði verið að nudda blóðið við þrif. Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideild lögreglunnar, sagði að engin ummerki um ælu hefðu fundist í bílnum. 

Parið sem fékk bílinn eftir að Thomas skilaði honum, sagðist fyrir dómi í gær ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu, syni þeirra hefði þó fundist lyktin í bílnum ógeðsleg.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
37 vitni voru á vitnalistanum þegar aðalmeðferð í máli Thomasar hófst.

Aðalmeðferðinni í málinu verður haldið áfram 1. september en þá koma meðal annars fyrir dóminn Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sem stýrði rannsókn málsins og Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV