Jöklar á Tröllaskaga hopa hratt vegna hlýnunar

07.09.2017 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: NÍ  -  Náttúrufræðistofnun Íslands
Jöklar á Tröllaskaga hafa minnkað um allt að þriðjung á síðustu hundrað árum. Mest var rýrnunin á fyrstu áratugum 20. aldar og gerir Náttúrufræðistofnun ráð fyrir áframhaldandi bráðnun þeirra á komandi árum. Ástæðan er hlýnandi loftslag. Á sama tíma jókst þó snjókoma um allt að 40 prósent.

Ný rannsókn

Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóli Íslands tóku nýverið þátt í rannsókn sem stýrt var af hópi vísindamanna við háskólann í Madrid á Spáni, þar sem hop og rýrnun Gljúfurárjökuls og Tungnahryggjökuls eystri og vestari á Tröllaskaga voru kortlögð. Greint er frá niðurstöðunum á vef Náttúrufræðistofnunar. Notast var við gögn frá Veðurstofunni sem og reiknilíkön. 

Minnka þrátt fyrir meiri snjókomu

Niðurstöðurnar sýndu að afkoma jökla á Tröllaskaga er mjög háð breytingum á sumarhita og vetrarúrkomu, en á árunum 1900 til 2014 minnkaði flatarmál jöklanna um fjórðung en ívið meira í rúmmáli. Fram kemur að meginorsökin fyrir hopinu sé annars vegar hækkandi meðalárshiti, um 1,9 gráður, og hins vegar hækkandi sumarhiti, um 1,5 gráður. Á sama tíma jókst snjókoma á jöklunum um 30 til 45 prósent, sem gerði það að verkum að þeir minnkuðu minna en ella.

150 jöklar á milli fjallanna

Á vef Náttúrufræðistofnunar um jökla á Tröllaskaga segir: 

Á milli allt að 1500 m hárra fjalla Tröllaskaga, sem skilur að Eyjafjörð og Skagafjörð, eru djúpar skálar og dalir sem jöklar ísaldar hafa grafið fyrir meira en 10.000 árum. Í því völundarhúsi sem dalirnir og fjöllin skapa leynast yfir 150 smájöklar sem þekja um 150 km² lands. Flestir jöklanna sitja í botnum skála og dala sem snúa undan sólu en slíkir jöklar kallast ýmist dal-, skálar- eða hvilftarjöklar. Jöklarnir eru yfirleitt um og yfir 1 km² að stærð en nokkrir ná 3–5 km² stærð. Fáir gera sér grein fyrir þessum mikla fjölda jökla á svæðinu en margir þeirra eru vel faldir og sjást illa eða ekki frá alfaraleiðum.