Kalifornía gerir loftslagssáttmála við Kína

epa05008469 China's President Xi Jinping attends a meeting of the second Understanding China Conference, in Beijing, China, 03 November 2015.  EPA/JASON LEE / POOL
Xi Jinping, forseta Kína, er ekki vel við að stjórnöldum sé hallmælt.  Mynd: EPA  -  REUTERS POOL
Kaliforníuríki og Kína gerðu samkomulag sín á milli um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu segir hamfarir vofa yfir verði ekki gripið tafarlaust til aðgerða gegn loftslagsbreytingum.

Brown var á alþjóðlegri ráðstefnu í Peking um hreina orku. Hann ræddi við blaðamenn að henni lokinni um ákvörðun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum. Brown sagði það einungis eiga eftir að hægja örlítið á árangrinum. Kína, Evrópuþjóðir og einstök ríki Bandaríkjanna ætli að fylla í gloppurnar sem Bandaríkjastjórn skilur eftir sig með því að draga sig úr leiðtogahlutverkinu. 

Eftir ráðstefnuna hélt Brown lokaðan fund með Xi Jinping, forseta Kína, þar sem þeir gerðu samkomulag um áherslu Kína og Kaliforníu á græna tækni. Að sögn Browns bar ákvörðun Bandaríkjaforseta ekki á góma á fundinum í gær. Hann sagði Xi fundinn hafa verið á jákvæðu nótunum og hann telji forsetann ekki langa til að munnhöggvast við Trump, að sögn Guardian.

Ákvörðun Trumps um að draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum, og verða þar með eitt þriggja ríkja heims sem eru ekki þátttakendur í honum, hefur vakið mikla furðu víða um heim. Nú síðast gagnrýna norður-kóresk stjórnvöld Bandaríkjaforseta fyrir úrsögnina, og segja hana til marks um sjálfselsku hans, að sögn bandarísku fréttastofunnar CNN.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV