Lækka framlag til mannréttindanefndar

13.09.2017 - 04:20
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Neðri deild filippeyska þingsins samþykkti að lækka framlag ríkisins verulega til mannréttindanefndar þess. Nefndin hlýtur aðeins eitt þúsund pesóa, jafnvirði rúmlega tvö þúsund króna, úr fjárlögum næsta árs.

AFP fréttastofan hefur eftir yfirvöldum að þetta sé svar þingsins við rannsókn mannréttindanefndarinnar á stríð forsetans Rodrigo Duterte gegn fíkniefnum. Gagnrýnendur forsetans segja þetta enn eitt skref hans til að þagga niður í andstæðingum herferðar sinnar. Þúsundir hafa látið lífið í stríði hans gegn eiturlyfjum, sem mannréttindasamtök segja jaðra við glæpi gegn mannkyninu.

Mannréttindanefnd ríkisins er ein nokkurra sjálfstæðra ríkisstofnana sem hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Nefndin hefur rannsakað nokkur þeirra 3.800 dauðsfalla sem hafa orðið í stríði stjórnvalda gegn eiturlyfjum.  Svo virðist því sem framlag ríkisins til nefndarinnar sé svar þess við rannsóknum hennar. Fjárlögin hljóða upp á um 3.800 milljarða pesóa, og hlýtur mannréttindanefndin einungis tvö þúsund þeirra. Francis Pangilinan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir þetta til marks um einræðistilburði Maduros.

Fjárlagafrumvarp efri deildarinnar er talsvert rausnarlegra í garð mannréttindanefndarinnar. Þar er gert ráð fyrir tæpum 700 milljónum pesóa til hennar. Ef ágreiningur ríkir á milli neðri og efri deildar varðandi fjárlögin semja þær sín á milli um lokaútgáfu þess. Hún bíður svo undirritunar eða neitunar Dutertes forseta.

Duterte hefur heitið því að drepa tugi þúsunda glæpamanna á leið sinni að því markmiði að losa landið við eiturlyf. Hann segir lögreglu- og hermönnum að þeir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að lenda í fangelsi fyrir ólöglegar aðfarir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV