Loftslagsáhyggjur stöðva ekki flugbrautargerð

Mynd með færslu
Vínarflugvöllur.  Mynd: Wikimedia Commons
Stjórnarskrárdómstóll Austurríkis hefur fellt úr gildi úrskurð neðra dómstigs sem bannaði að flugbrautum Vínarflugvallar yrði fjölgað úr tveimur í þrjár vegna áhrifa þess á loftslagsbreytingar. Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöður að fyrri úrskurður brjóti gegn stjórnarskrá landsins, auk þess sem hann sé byggður á kolröngum útreikningum og ályktunum.

Í fyrri úrskurðinum frá því í febrúar komst stjórnsýsludómstóll að þeirri niðurstöðu að með fjölgun flugbrautanna mundi útblástur gróðurhúsalofttegunda aukast til muna í landinu og að það bryti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Austurríkismanna um að draga úr slíkri mengun.

Flugvallaryfirvöld áfrýjuðu niðurstöðunni, sem var sömuleiðis gagnrýnd harðlega af bæði stjórnmálamönnum og fulltrúum atvinnulífsins.

Stjórnarskrárdómstóllinn komst svo að því í gær að fyrri úrskurðurinn sé meingallaður og ofreikni meðal annars mjög líkleg áhrif þriðju flugbrautarinnar á útblástur koltvísýrings. Þar fyrir utan sé hann brot á stjórnarskránni, enda eigi náttúruverndarsjónarmið ekki undantekningalaust að njóta forgangs á öll önnur. Málinu er því vísað aftur til stjórnsýsludómstólsins, sem á að úrskurða um málið á nýjan leik með þessi atriði til hliðsjónar.

23 milljónir manna fóru um Vínarflugvöll í fyrra. Stjórnendur flugvallarins hafa barist fyrir því í áratug að fá að leggja þriðju brautina.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV