Loftslagsmarkmið verða erfiðari

03.06.2017 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta að draga Bandaríkin út úr Parísarsamningnum hefur þjappað ríkjum heims saman en markmiðin verða að einhverju leyti erfiðari. Þetta segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. 

Árni segir að skaðinn hafi verið skeður áður en Trump tilkynnti að Bandaríkin ætli að draga sig út úr Parísarsamningnum. Enginn þjóðarleiðtogi hafi átt von á því að hann myndi leggja eitthvað gott til málanna, hvorki innan né utan Parísarsamkomulagsins. 
 
„Það sem hefur verið jákvæðast í þessu öllu saman er að mjög mörg ríki og ríkjabandalög hafa lýst því yfir að þau muni halda áfram. Og kannski það sem er ennþá jákvæðara er að svo mörg fylki í  Bandaríkjunum og borgir sem ætla og stór fyrirtæki sem munu halda áfram engu að síður.“    
 
Trump fái ekki miklar undirtektir. Til dæmis hafi Bloomberg fyrrverandi borgarstjóri New York borgar sagt í gær að ákvarðanir um losun séu ekki teknar í Washington heldur í borgum, hjá fyrirtækjum og í ríkjum Bandaríkjanna.
 
„Ég hætti aldrei að vona þetta verður á einhvern hátt erfiðara en þetta hefur líka þjappað saman ríkjum, t.d. Norðurlöndunum sem hafa sent sameiginlegt bréf til Trump og stjórnvöld heima á Íslandi virðast taka þess mál mun alvarlegar en þau gerðu.“

Árni á von á því að Bandaríkjamenn beiti öllum ráðum og reyni að gera tvíhliða samninga við fátæk ríki. Það hafi Bush Bandaríkjaforseti gert þegar hann dró Bandaríkjamenn út úr Kyoto-bókuninni.
 
„Það virðist vera sem Evrópa, Kína og Indland standi saman og fleiri iðnríki, Japan kannski sem muni leggja til aukið fjármagn.“

„Vonandi heldur þessi samstaða áfram og almenningur í Bandaríkjunum standi við sína plikt, borgirnar, fylkin og fyrirtækin. Það eru mörg stór fyrirtæki í Bandaríkjunum sem hafa lýst yfir stuðningi og munu halda áfram að beita sér í anda Parísarsamkomulagsins.“   
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV