Losun brennisteinsdíoxíðs jókst um 43%

30.06.2017 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrsta markmið áætlunar um loftgæði hér á landi til næstu 12 ára er að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar og að fækka árlegum fjölda daga er svifryk fer yfir skilgreind mörk af völdum umferðar, samkvæmt drögum sem birt hafa verið á vef Umhverfisstofnunar.  

Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir ber umhverfis- og auðlindaráðherra að gefa út áætlun um loftgæði um landið allt til 12 ára. Umhverfisstofnun vann tillögu að áætluninni að höfðu samráði við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og fleiri.  

Stóriðjan hefur áhrif á heildar losun

Huga þarf sérstaklega að svifryki, brennisteinsdíoxíði og brennisteinsvetni í andrúmslofti, að því er fram kemur í drögunum. Losun á brennisteinsdíoxíði jókst um 43 prósent á milli áranna 2005 og 2015 hér á landi. Í drögunum segir að með aukinni stóriðju næstu árin og aukinni virkjun á jarðvarma megi ætla að heildarlosun muni aukast. Eru þar nefndar kísilverksmiðjur United Silicon, Thorsil og PCC á Bakka og Þeystareykjavirkjun.

Vilja banna sölu á „fjar-startbúnaði“

Átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu og betri almenningssamgöngur eru hluti af sóknaráætlun í loftslagsmálum. Meðal aðgerða sem grípa á til í þágu betra loftslags eru meiri álögur á notkun dísilvéla fyrir árslok 2022 til að draga úr notkun þeirra. Þá er lagt til að Samgöngustofa leggi til að sala á fjarstartbúnaði bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði bönnuð fyrir árslok 2020.

Stefnt er að því, samkvæmt drögum áætlunarinnar, að Umhverfisstofunun komi á laggirnar loftgæðaupplýsingakerfi fyrir lok þessa árs til að koma upplýsingum um loftgæði til skila til almennings. Gögn um loftgæðamælingar verða birt á vef Umhverfisstofnunar og þar má sjá hversu sinni  hversu mikil loftmengun er miðað við ákvæði reglugerða.

Frestur til að skila athugasemdum til Umhverfisstofunar er til 31. ágúst næstkomandi. Drögin má lesa hér

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir