Mannskætt óveður í Manila - myndskeið

12.09.2017 - 11:56
Erlent · Asía · Veður
Fjórir hafa fundist látnir og sex er saknað eftir að óveðurslægðin Maring olli flóðum í Manila, höfuðborg Filippseyja, og nágrenni í dag. Meðal hinna látnu eru tólf ára telpa sem drukknaði í á sem flæddi yfir bakka sína í einu af úthverfum borgarinnar. Þá lést þriggja mánaða barn þegar skriða féll suðaustan við Manila.

Að sögn yfirvalda eru flestir hinna látnu og þeirra sem saknað er úr hópi snauðustu íbúa Filippseyja. Þeir búa iðulega á hættulegri svæðum en hinir sem hafa meira milli handanna.

Skólum var lokað í dag í Manila vegna óveðursins. Þá voru opinberar skrifstofur lokaðar, svo og mörg einkafyrirtæki.

Óveðurslægðinni sem fór yfir höfuðborgarsvæðið fylgdi ausandi rigning. Um það bil tuttugu slíkar lægðir fara yfir Filippseyjar á hverju ári.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV