„Óeðlilega eðlilegur“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Thomas Møller Olsen er „eiginlega óeðlilega eðlilegur,“ sagði Sigurður Páll Pálsson geðlæknir í skýrslugjöf sinni fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Sigurður Páll var fenginn til að gera geðmat á Thomasi. Sigurður sagði að Thomas væri með einhverja persónuleikaveilu sem birtist í því að hann ætti erfitt með að horfast í augu við eigin bresti. Mat geðlæknisins er að Thomas sé sakhæfur.

Sigurður Páll sagði að á fyrsta fundi sínum og Thomasar hafi hann óttast að springa. Átta dögum síðar hafi Thomas verið orðinn mun rólegri. 

„Hann er eiginlega óeðlilega eðlilegur, ef þið skiljið hvað ég meina,“ sagði Sigurður Páll um Thomas. Honum gafst ekki færi á að ræða Birnumálið við Thomas meðan á geðmatinu stóð. „Mér gafst aldrei tækifæri til að ræða málið við hann. Hann forðaðist að ræða það og vildi frekar ræða eigin líðan og fjölskyldumál.“ Sigurður Páll sagðist telja að persónuleiki Thomasar mótaðist af því að hann afneitaði neikvæðum eiginleikum sínum.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, dró geðmatið í efa og taldi að geðlæknirinn hefði farið út fyrir verksvið sitt. Þegar Páll bar það upp á geðlækninn sagðist Sigurður Páll aldrei á tuttugu ára ferli hafa fengið slíka spurningu. Páll spurði hvort prófin sem lögð voru fyrir Thomas væru próf sem lögð væru fyrir fólk í venjulegum kringumstæðum. Sigurður sagði að þau væru lögð fyrir fólk við margvíslegar aðstæður, inni á geðdeild og í fangelsum.

Við skýrslugjöfina kom fram að Thomas hefði á ákveðnum tímapunkti óskað eftir því að verjandi sinn yrði viðstaddur viðtöl hans við geðlækninn. Sigurður Páll sagðist hafa skynjað að viðhorf Thomasar til sín hafi breyst eftir að hann var fluttur á Hólmsheiði og losnaði úr einangrun.