Mynd með færslu
07.07.2017 - 08:51.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland, .Plata vikunnar
Tales from a Poplar Tree er fyrsta plata Aspar Eldjárn. Lagt er upp með tónlist sem vísar í klassík og þjóðlagatónlist, borin uppi af tilfinningaþrungnum söng. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ösp Eldjárn, eins og svo margir sem bera þetta ættarnafn, býr að því að tónlistin rennur strítt og fimlega um æðarnar. Bróðir hennar er Örn Eldjárn, gítarleikarinn knái og ekki þarf ég sosum að fjölyrða um öll frændsystkinin sem svo fallega dýrka tónlistargyðjuna. Ösp hefur verið búsett í London lengi vel og hefur sinnt tónlist af ýmsu tagi, sungið með kór, spilað djass, kennt börnum og sungið með ekki ómerkara fólki en Lauru Mvula og Imogen Heap. Hún hefur þá starfað með Sam Lee, einum mikilvirkasta þjóðlagatónlistarmanni Englands í dag sem hefur verið að keyra mikið og gott starf í gegnum Nest Collective hópinn.

Kría

Meðfram þessu öllu hefur hún samt náð að kría út tíma til að sinna eigin tónlistarsköpun. Sá er þetta ritar var svo heppinn að fá nokkuð sérkennilega sendingu frá Ösp, alla leiðina frá London. Um var að ræða litla tréskífu úr garðinum hennar heima í Svarfaðardal. Skífan, sem var að sjálfsögðu úr asparviði, innihélt niðurhalskóða þar sem hægt var að nálgast fjögur lög sem prýða þessa plötu. Verkið var síðan klárað, meðal annars fyrir tilstuðlan Karólínusjóðsins, og var tekin upp í Café Music Studios í London af Cherif Hashizume. Lögin eru ýmist á ensku eða íslensku, textar eru eftir Ösp fyrir utan þrjú ljóð sem eru eftir Lindu Guðmundsdóttur, Davíð Stefánsson og Pál Ólafsson. Þau Helga Ragnarsdóttir og Örn bróðir koma við sögu ásamt ýmsum öðrum hljóðfæraleikurum, búsettum í Bretlandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Ösp ásamt Erni Eldjárn, bróður sínum sem leikur á gítar.

Stikar

Tónlistin stikar á milli ýmissa svæða og speglar dálítið starfsumhverfi Aspar í London. Tónlistin er aðgengileg, en potar bæði í nútímaklassík og þjóðlagatónlist veri hún ensk, arabísk eða skandinavísk. Miðlæg er svo sterk rödd Aspar, í senn blíð og ágeng einhvern veginn og hún leyfir henni að tindra og sindra þegar við á, heldur tóninum á áhrifaríkan hátt og dregur mann þar með inn í stemninguna. Sum laganna eru lágstemmd og melankólísk, önnur epískari og hátimbraðri en það er aldrei alveg hægt að festa fingur á stílinn sem er afskaplega hrósvert, minnir mig dálítið á það þegar ég hlýddi á fyrsta sólóverk Ólafar Arnalds. Eivör Pálsdóttir kemur jafnvel í hugann líka sem og Joni Mitchell, sem sannarlega þræddi ókunna stigu í sinni tónlistarsköpun, blandaði saman ólíkum hlutum en gerði algerlega að sínum. Tilkomumikið byrjendaverk hjá Ösp, vonandi að hún nái að skjóta rótum sem höfundur eigin tónsmíða í framhaldinu.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu

Tónlist

Þessi rödd, þessi gítar, þessi djúpa þrá

Tónlist

Lokkandi stef á lygnum værðarsjó

Tónlist

Stemningsríkt rokk í ástríðufullum ham