Sóttu um uppreist æru með hreint sakavottorð

14.08.2017 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: cc0  -  pixabay
Frá árinu 1995 hefur dómsmálaráðuneytið hafnað 54 beiðnum um uppreist æru. Tvær komu frá fólki sem við nánari skoðun reyndist hafa hreint sakavottorð. Fyrir tveimur árum hafnaði ráðuneytið kröfu manns um að fá sakaruppgjöf þar sem það taldi aðstæður mannsins hvorki óvenjulegar né sérstakar. Hann hafði hlotið tveggja ára skilorðsbundinn dóm, meðal annars fyrir að hóta vitni.

Eitt mál þessara mála er enn til skoðunar hjá ráðuneytinu. Sá var dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni. 9 af þessum 54 málum voru felld niður þar sem viðkomandi sendu ekki frekari gögn þrátt fyrir ítrekun ráðuneytisins.  Í  tveimur málum var beiðnin afturkölluð en í einu þeirra hafði viðkomandi hlotið tólf ára dóm fyrir morð. 

Og fólk virðist ekki meðvitað um hvað þarf til að hljóta uppreist æru því í langflestum þeirra mála sem ráðuneytið hafnaði voru dómarnir hreinlega ekki nógu þungir - voru annað hvort skilorðsbundnir eða sektir. 

Í fjórum tilvikum var beiðni um uppreist æru synjað á grundvelli 84. greinar hegningarlaga.  Reglan kveður á um að hafi maður aðeins einu sinni hlotið fangelsisdóm og sá dómur var ekki lengri en eitt ár njóti viðkomandi allra þeirra réttinda sem fæst með uppreist æru að fimm árum liðnum.  Að því gefnu að viðkomandi hafi ekki verið ákærður á þeim tíma.

Fram kom á vef RÚV fyrr í dag að sex nauðgarar, þrír barnaníðingar og þrír morðingjar væru á meðal þeirra 32 sem hafa fengið uppreist æru frá árinu 1995.

Í yfirlitinu sem ráðuneytið birtir kemur fram hvaða lagagreinar viðkomandi gerðust brotlegir við, hversu þunga dóma þeir hlutu, hvaða ár var sótt um uppreist æru og hvaða dag uppreist æru var veitt eða af hverju henni var synjað. Nöfn umsækjenda eru ekki birt.