Stakk fyrrverandi kærasta og lamdi með kylfu

12.07.2017 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv  -  rúv
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir konu sem er grunuð um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás en hún er sögð hafa stungið fyrrverandi kærasta sinn og slegið hann með kylfu í byrjun síðasta mánaðar. Stungusárið sem kærastinn fyrrverandi fékk var hægra megin á brjósti og tölvusneiðmynd sýndi að skurðurinn var mjög nálægt slagæð í vöðva.

Sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítalans sagði að ef hnífurinn hefði snert æðina hefði það getað valdið lífshættulegri blæðingu inn á lunga.

Konan hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 5. júní sem síðan var framlengt til 4. ágúst í gær.  Í skýrslutöku hjá lögreglu sagðist kærastinn fyrrverandi hafa verið heima hjá sér með þremur vinum.  Fyrrverandi kærasta hans hafi ítrekað verið búin að hringja en hann ekki nennt að tala við hana. Hann hafi því beðið stúlku sem var stödd á heimili hans að svara í símann fyrir sig.  Kærastan fyrrverandi hafi þá skellt á en síðan sent smáskilaboð þar sem hún sagðist hlakka til að hitta þau. 

Stuttu seinna hafi verið bankað upp á hjá honum. Þá hafi þar verið komin konan og vinur hennar með klúta fyrir andlitum sínum. Konan hafi slegið hann einu höggi í hnakkann með kylfu og síðan komið til átaka. Á einhverjum tímapunkti hafi kærastan fyrrverandi tekið upp hníf og stungið hann í brjóstið.  Maðurinn kvaðst vera þess fullviss að konan hefði komið til að drepa hann.

Konan sagðist í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu hafa viljað mæta fyrrverandi kærasta sínum augliti til auglitis. Hún væri þreytt á því hvernig sambandi þeirra væri háttað.  Henni hafi brugðið þegar önnur kona svaraði í símann og því farið heim til hans og ráðist á hann.

Í næstu skýrslu sagðist konan hafa farið að heimili mannsins til að skila honum lyfjum sem hún hefði fengið hjá honum. Hún hafi farið vopnuð hafnaboltakylfu og rafbyssu þar sem hún hefði orðið fyrir hótunum af hálfu konunnar sem svaraði í símann.  Þegar kærastan fyrrverandi hefði opnað fyrir henni hefði hún slegið hann tveimur höggum með hafnaboltakylfu, hann hefði tekið hana niður í gólfið en síðan muni hún ekki meir.

Í þriðju skýrslutökunni sagðist konan hafi orðið reið og afbrýðisöm þegar einhver kona svaraði í síma mannsins og hafði í hótunum við hana  Hún hafi því fengið vin til að fara með sér að heimili mannsins.  Áður hefði hún komið við heima hjá sér, sótt þangað búning, linsur og grímu og hafnaboltakylfu sem áttu að nota til að hræða manninn og konuna. Þá hafi hún einnig verið með hníf í vasanum.

Þegar maðurinn hafi síðan opnað fyrir henni sló hún með hafnaboltakylfu í höfuðið.  Þau hafi síðan tekist á fyrir utan íbúðina og hún orðið vör við að hann væri með hnífinn hennar. Henni hafi tekist að ná hnífnum af honum og látið vin sinn hafa en þá séð að hendi hennar var blóðug. Síðan hafi lögregla komið á vettvang. Vinur konunnar kannaðist hins vegar ekki við að hafa séð manninn á nokkrum tímapunkti halda á hníf - vinkona hans hafi verið með hníf í átökum við manninn og honum hafi tekist að slá hann úr hendi hennar. 

Vitni, sem gekk framhjá húsinu, sagðist hafa heyrt mikil öskur kom frá kjallara þess og heyrt einhvern segja. „Hún stakk hann, hún stakk hann.“ Þá hafi vitnið heyrt konuna segja við vin sinn. „Hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín,“ og vinurinn svarað: „Ég faldi dótið.“  Við leit lögreglu í garði hafi síðan blóðugur hnífur og blóðug kylfa fundist sem talin séu tengjast málinu.

   

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV