Stemningsríkt rokk í ástríðufullum ham

Berdreyminn
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Sólstafir
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts

Stemningsríkt rokk í ástríðufullum ham

Berdreyminn
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Sólstafir
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
Mynd með færslu
10.06.2017 - 10:10.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Sólstafir þróast enn á Berdreyminn, þessi fyrrum svartþungarokkssveit á erfitt með að standa kyrr og píanó, kórar og blíðar söngmelódíur styðja vel við einstaka sýn þessarar farsælu sveitar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Sólstafir verða líkari Sólstöfum með hverri plötu. Hey, bíddu, ekki fara í burtu! Það er í alvörunni meira spunnið í þessa opnunarsetningu en að þetta sé bara eitthvað ódýrt gagnrýnandagjálfur. En hvað ég eiginlega meina? Jú, með hverri plötu er eins og Sólstöfum takist að þétta á og brýna til hljóðheim sem er algerlega þeirra eigin og engra annara. Með hverri plötu losa þeir sig við utanaðkomandi áhrif, þau flysjuð burt hægt og bítandi þar til að eftir stendur eitthvað sem hægt væri að kalla kjarna.

Margt og mikið

Sólstafir hóf ferilinn sem tiltölulega hefðbundin svartþungarokkssveit en hóf fljótlega að sveigja formið og beygja; Motörhead-legt grúvrokk, Sonic Youth skotin nýbylgja, síðrokk að hætti Sigur Rósar, diskó í boði Abba (!). Sveitinni er blessunarlega ekkert heilagt og fyrir áhugamenn um skapandi tónlistarfólk sem á erfitt með að hjakka í sama fari hefur ferill Sólstafa verið linnulítil veisla. Augljósasta dæmið til samanburðar væri norska sveitin Enslaved, sem fór á líkan hátt úr hörðu og hráu svartþungarokki yfir í stemningsríkt og tilraunabundið rokk. Svipað er með Sólstafi þó hljóðheimarnir séu ólíkir í eðli sínu. Framþróun Sólstafa hófst fyrir alvöru á Köld (2009), innihaldið gotneskt, dramabundið rokk frekar en þungarokk sem opnaði á brautargengi Sólstafa á erlendri grundu. Þeirri vinnu var svo viðhaldið á Svartir sandar (2011) og Ótta (2014). Sólstafir hafa í raun verið að færast nær hreinu rokki með hverri plötu og Berdreyminn ber merki þess. Söngurinn verður æ melódískari, ofsa og æði skipt út fyrir ígrundun. Ekki misskilja mig, ástríðan og epíkin er þarna yfir um og allt í kring en framreiðslan verður alltaf útpældari.

„Silfur-Refur“ opnar plötuna, upphafsnóturnar taka ofan fyrir Sergio Leone áður en hleypt er á hlemmiskeið. Rífandi gítarar studdir ástríðufullum söngi Aðalbjörns Tryggvasonar (og allir textar á kjarnyrtri íslensku). Frábært upphaf og lag tvö, „Ísafold“, ekki síðra. Hvellur gítarhljómurinn minnir helst á Big Country og „One of these Days“ með Pink Floyd fær skemmtilega vottun í bassaleiknum. „Hula“ er hæglátt og fallegt, píanó kemur við sögu svo og kór. „Nárós“ inniheldur gítarkafla sem er orðinn einkennandi fyrir Sólstafi, tónlistin rís og fellur á epíska vegu og sogar hlustandann inn.

Heilsteypt

„Hvít sæng“ fjallar um snjóflóðin á Vestfjörðum, ógurleg smíð sem hreinlega erfitt er að hlusta á. Aðalbjörn er fæddur og uppalinn á Ísafirði, hefur því persónuleg tengsl þarna og sorginni og tilfinningarumrótinu í kringum þessa voðaatburði eru gerð góð og sannfærandi skil.

Heilsteypt og vörpulegt verk frá Sólstöfum þegar allt er saman tekið. „Ambátt“, næstsíðasta lagið, segir ýmislegt um uppleggið. Píanó, hvíslandi söngrödd og frjáls, djassaður trommuleikur. Það er allt galopið í landi Sólstafa.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bræður tveir í hefndarhug

Tónlist

RÚV frumsýnir Silfur-Ref með Sólstöfum

Tónlist

Fjarrænt, fumlaust og feykisvalt

Tónlist

Flæðir áfram, líkt og fallegt fljót