Svara þvingunum með efldri vopnaframleiðslu

13.09.2017 - 01:31
epa05998786 An undated photo made available by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, shows the test-fire of a ballistic rocket equipped with precision guidance system, at an undisclosed location in North Korea
 Mynd: EPA  -  KCNA
Stjórnvöld í Norður-Kóreu ætla að svara hertum viðskiptaþvingunum með eflingu vopnaframleiðslu sinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytis landsins sem lesin var upp á ríkisfréttastofunni KCNA í kvöld. 

Norður-Kórea ætlar að leggja margfalt meira á sig til að efla styrk landsins og verja sjálfstæði sitt og tilverurétt, segir í tilkynningunni að sögn AFP fréttastofunnar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti að herða enn frekar á þvingunum gagnvart ríkinu eftir nýjustu kjarnavopnatilraun þess. Þar á meðal er ríkinu bannað að flytja út efni og innflutningur á olíu verður bannaður eftir þessa sjöttu kjarnorkutilraun landsins. Bætist þetta við bann við útflutningi Norður-Kóreu á kolum, blýi og sjávarafurðum, sem lagt var á eftir tilraun ríkisins á langdrægum flugskeytum fyrr á árinu.

Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu segir nýju þvinganirnar vera harkalega aðför að lögmætum rétti ríkisins á að verja sig. Þær komi til með að þrengja verulega að ríkinu og íbúum þess. Bandaríkin, sem lögðu fram tillöguna fyrir Öryggisráðið, segja þvinganirnar til þess gerðar að þrýsta á Kim Jong-Un og stjórn hans að setjast að samningaborðinu. Er stefnan sett á að fá Norður-Kóreu til að láta af vopnaþróun sinni, en sérfræðingar eru svartsýnir á að þvinganir dugi til þess að kjarnavopnaþróun ríkisins hætti.