Tekjulægra fólk muni meira um 20 þúsund krónur

12.09.2017 - 21:08
„Það munar auðvitað mjög miklu fyrir einstakling sem er ekki með nema 280 þúsund krónur á mánuði að fá 20 þúsund krónur í viðbót,“ sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í Kastljósi í kvöld aðspurður um hækkun á lífeyri til fólks sem býr eitt upp í 300 þúsund krónur. „Það er enginn sem telur að það séu einhverjir smápeningar ef menn eru ekki með meira heldur en þetta, þannig að við verðum að horfa á þetta í því samhengi. Sem betur fer er stærstur hluti með stærri fjárhæðir."

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála aukist um 17,6 milljarða milli ára, fyrir utan launa- og verðlagsþróun. Benedikt segir að rúmur helmingur upphæðarinnar fari í almannatryggingakerfið, og þá lífeyri öryrkja og eldri borgara. Afgangurinn fari í heilbrigðismál. „Þar af fara um tveir milljarðar til viðbótar í nýja Landspítalann sem verður loksins byrjað á seinni hluta árs 2018, í jarðvegsvinnu. Þá erum við komin á vegferð þar sem við erum komin með nýtt sjúkrahús árið 2023 samkvæmt áætlunum.“

Meiri upphæð fyrir tekjulága

Eitt af áherslumálum fjárlagafrumvarpsins, sem kynnt var í morgun, er að fólk sem býr eitt og er á örorku- eða ellilífeyri fái að minnsta kosti 300 þúsund krónur á mánuði í stað 280 þúsund króna. Benedikt var spurður að því í Kastljósi í kvöld hvort nóg væri að gert með 20 þúsund króna hækkun þegar litið væri til þess að stefnt væri að því að skila 44 milljarða króna tekjuafgangi á fjárlögum.

Benedikt segir að fólk með 280 þúsund krónur á mánuði muni um 20 þúsund krónur. „Þá veltirðu hverri einustu krónu. Þannig að það munar um það. Þetta er ekki eins og fyrir einhvern sem er 600-700 þúsund að þá finnst honum þetta vera kannski minni fjárhæð en þarna erum við að tala um hækkun upp á um sjö prósent."

Með þessari hækkun verði lífeyrir jafn hár og lágmarkslaun sem verði hækkuð í 300 þúsund krónur í upphafi næsta árs.