Þegar hjartað springur af harmi

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Ragnar Ólafsson
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Urges
 · 
Menningarefni

Þegar hjartað springur af harmi

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Ragnar Ólafsson
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Urges
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
11.08.2017 - 12:00.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Urges er fyrsta sólóplata Ragnars Ólafssonar, þar sem hann gerir upp sambandsslit á einlægan og hispurslausan hátt. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ragnar Ólafsson hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi lengi vel, hefur starfað með ýmsum hljómsveitum en þekktastur er hann fyrir veru sína í Árstíðum sem voru að gera samning við Season of Mist bara í þessari viku (til hamingju með það strákar!). Á Urges stendur Ragnar hins vegar einn og sér í fyrsta sinn en tilefnið kallaði á það, sambandsslit með tilheyrandi tómleika, efasemdum, sorg og svo framvegis. Svona hlutir krefjast alltaf úrvinnslu og í lófa lagið fyrir tónlistarmann að nýta sér listina til þess atarna.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Ólafsson

Lágstemmt

Ragnar heldur sér á afar lágstemmdum nótum út plötuna. Mörg laganna eru bara söngur og gítar, og hann heldur sig til baka í söngnum, hálf hvíslar á köflum, sem er dálítið á skjön við raddnotkun hans alla jafna. Þetta virkar. Myndin sem maður fær er af manni, einum, sem er að hugsa, pæla, velta fyrir sér og spegla. Það er enda tilgangurinn. Lagatitlar eins og „Scar“, „Wine“ og „War“ ýja að innihaldinu en Ragnar passar sig, alla jafna, að hleypa sér ekki í tilfinningalega yfirkeyrslu sem hefur eðlilega verið freistandi, get ég rétt ímyndað mér. Þannig hefst platan ofurvarlega á „SSDD“, Ragnar talsyngjandi og talar m.a. um „my selfish ways“. Textablað fylgir ekki disknum, og því örðugara en ella að fylgja þræðinum, en mig grunar að það sé með vilja gert. Einhvers konar blanda af því að leggja spilin á borðið en um leiða að halda í einhverja dulúð og leyfa fólki að hafa fyrir þessu. Svona afgerandi mál er í raun ekki hægt að útskýra í hörgul heldur.

Í „Wine“ er svipuð stilla yfir, Ragnar fer hins vegar í falsettuna. Það er merkilegt, að daginn áður en ég settist niður til að skrifa var ég að hlusta á meistaraverk Bruce Springsteen frá 1982, Nebraska, berstrípaða plötu sem var tekin upp á fjögurra rása kassettutæki. Maður finnur fyrir svipuðum anda, einn maður í tónrænu hjúfri. Ég finn líka fyrir færeyskum anda, þessi hlýja stofustemning sem þarlendir ná oft að knýja fram á plötum sínum.

Heiðarlegt

Það er viss stígandi í plötunni, og í „A Prayer“ leyfir Ragnar sér að öskra smá, láta vaða. Strax á eftir róa menn sig samt niður, „Relations“ er lítið annað en værðarleg stemma. En þegar hér er komið sögu er farið upp og niður. „Urges“ ólgar og Ragnar hagnýtir sér kraftsönginn, án þess að hleypa sér í tilgerð samt sem hefði verið auðvelt. Undir rest er kominn dálítill hljómsveitafílingur, „Vegetate“ inniheldur fallegan píanóleik og þess má geta að þó þetta sé sólóplata koma margir vinir Ragnars að plötunni á einn eða annan hátt.

Urges er heiðarlegt verk, plata sem varð að gera, og Ragnar getur gengið sáttur frá borði. Vonandi líka að tónlistin, hin æðsta list, hafi náð að líkna eitthvað.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Urges – Ragnar Ólafsson