Þessi rödd, þessi gítar, þessi djúpa þrá

Bubbi Morthens
 · 
Gagnrýni
 · 
Plata vikunnar
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Túngumál
 · 
Menningarefni

Þessi rödd, þessi gítar, þessi djúpa þrá

Bubbi Morthens
 · 
Gagnrýni
 · 
Plata vikunnar
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Túngumál
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
23.06.2017 - 15:00.Vefritstjórn.Plata vikunnar
Bubbi Morthens leitar á suðrænar slóðir á nýjustu plötu sinni, Túngumál. Gítara spilar hann allur sjálfur, röddin frábær sem fyrr og platan með betri verkum Bubba hin síðustu ár. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég hef verið að skrifa reglulega um tónlist Bubba Morthens síðan ég hóf skrifferilinn og man að ég tók viðtal við hann í fyrsta sinn vegna Nýbúans sem hann gerði árið 2001. Þar var Bubbi að rokka sig upp (síðasta plata hafði verið hin lágstemmda Bellman árið 2000) og á næstu árum átti hann eftir að reyna eitt og annað. Bubbi getur ekki setið kyrr, hann er á öfugu rófi miðað við, segjum Lemmy kenndum við Motörhead sem var afar sáttur við að fylgja sömu formúlu til enda. Nei, Bubbi þarf að prófa en fyrst og síðast þarf hann að gera. Ekki hefur allt verið jafn vel heppnað en heilt yfir er verkaskrá Bubba, eins löng og hún er orðin, með miklum ólíkindum hvað gæði varðar. Bubbi er lifandi, skapandi listamaður og hann þorir að láta vaða.

Í suðrinu

Á þessari nýjustu plötu er gítarinn í sæmilegasta forgrunni og í flestum laganna horfir Bubbi suður, sækir áhrif frá Brasilíu, Chile, Mexíkó, Portúgal. Yfirlýst markmið hans var að finna andardráttinn, finna hvar tónlistin er jafn eðlileg og ómeðvituð fyrir fólki og þegar það dregur andann. Eins og segir, Bubbi hefur reynt sig við ýmislegt í gegnum tíðina en í svona plötu er hann á sínu náttúrulega heimili mætti segja. Þar sem hlutirnir eru einfaldir, niðurstrípaðir og fara inn að kjarna. Enda hóf hann ferilinn sem vísnasöngvari og hefur reglubundið hlúð að þessum rótum sínum á plötum (Blús fyrir Rikka, Bellman) og á tónleikum, er hann er einn með gítarinn. Ég hef alltaf skynjað Bubba sem náttúrubarn í tónlist, hvar sköpunin er jafn eðlislæg og að draga andann og það sem hann var að leita að var því djúpt inni í honum allan tímann.

Andardrættinum nær hann annars með þessum suðræna fókus. Platan hefst með nokkrum slíkum lögum og einkennast þau af slagverki og hvössum, klingjandi gíturum sem Bubbi spilar sjálfur. Bubbi er frábær gítarleikari og það var hárrétt ákvörðun að fara þessa leið. Tölum næst aðeins um söngröddina, mér finnst eins og ég hafi aldrei skrifað sérstaklega um hana. Því að ef eitthvað, þá er það þessi rödd sem sker alltaf í gegn, sama hvaða stílum Bubbi bregður fyrir sig. Þetta er rödd sem heimtar athygli, voldugur baritónn sem er um leið seyðandi og gætinn. Það er einlægni og ástríða í röddinni – nú sem endranær. Og það er reyndar eins og hún sé sérstaklega knýjandi og andrík á þessari plötu. Í mörgum laganna er Bubba mikið niðri fyrir og það styður eðlilega við. „Skilaðu skömminni“ er sérstaklega vel heppnað, sterkur texti sem tekur á kynferðisníði.  Tvö lög eru útúrdúr frá hinu suðræna tema, „Cohen blús“ er myrk stemma til heiðurs hinum fallna meistara og „Bak við járnaðan himinn“ er rokkabillílag þar sem hatturinn er tekinn ofan fyrir Johnny Cash. Plötunni er þá slauffað með nokkuð áhrifamikilli smíð: „Guð blessi Ísland“ er löturhægur söngur hvar Bubbi veltir vöngum yfir efnahagsþrengingum íslenskrar alþýðu í kjölfar Hrunsins.  Ekki eru allar smíðarnar af sama kaliberi, nema hvað, en heildarmynd þessarar plötu er hins vegar afar sannfærandi. Bubbi virðist einfaldlega hafa verið sérstaklega innblásinn í þetta sinnið.

Einstakt

Staða Bubba í íslensku tónlistarlífi er einstök. Enginn semur texta, spilar á gítar eða syngur eins og hann. Og á Túngumáli dregur hann andann sem aldrei fyrr.

Tengdar fréttir

Tónlist

Lokkandi stef á lygnum værðarsjó

Tónlist

Stemningsríkt rokk í ástríðufullum ham

Menningarefni

Bræður tveir í hefndarhug