Þurfa ekki að standa við loforð um samdrátt

02.06.2017 - 17:40
Mynd með færslu
Hvert liggur leiðin?  Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Lagalega séð breytir ákvörðun Trumps um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu ekki miklu. Þetta segir Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands, búsett í Boston. Bandaríkin verða formlega aðilar að samningnum næstu fjögur árin.

Með Parísarsáttmálanum skuldbundu nær öll ríki heims sig til þess að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda og halda þannig aftur af hlýnun jarðar. Meðalhiti við lok þessarar aldar á þannig ekki að verða meira en tveimur gráðum hærri en hann var fyrir iðnbyltingu. Hvert aðildarríki setur sér markmið en þessi markmið eru þó ekki nægilega metnaðarfull til að það náist að halda hlýnuninni innan við 2 gráður, því er gert ráð fyrir að ríkin endurskoði þau reglulega og bæti í. Ef ríkin standa við markmiðin eins og þau eru í dag en gera ekkert umfram það er ráðgert að meðalhiti við lok þessarar aldar verði 3,3 gráðum hærri en fyrir iðnbyltingu. Í yfirlýsingu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni segir að taki Bandaríkin ekki þátt megi vænta þess að meðalhiti verði 3,6 gráðum hærri. 

Markmiðin eru bara pólitískar yfirlýsingar

Þrátt fyrir að Bandaríkin verði áfram aðilar að samningnum næstu fjögur árin þýðir það ekki að þau þurfi að standa við loforð sín um að leggja þrjá milljarða bandaríkjadala í Græna loftslagssjóðinn eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Raunin er sú að Parísarsáttmálinn leggur engar skyldur á herðar ríkja þegar kemur að því að grípa til aðgerða eða ná markmiðum um samdrátt í losun. Hann er ákveðinn rammi eða regluverk sem skyldar ríki til að setja sér markmið, útskýrir Hrafnhildur. „Þannig að Bandaríkin hefðu þannig séð getað verið aðilar að Parísarsamningnum áfram án þess að fara út í miklar og kostnaðarsamar aðgerðir eins og Donald Trump vísaði til í ávarpi sínu í gær. Það hefði hins vegar augljóslega skapað töluverðan þrýsting af hálfu annarra ríkja, almennings og fyrirtækja ef Bandaríkin hefðu ekki gert neitt en það er þannig lagalega séð í Parísarsamningnum að skuldbindingin felst í loforði um að upplýsa statt og stöðugt um markmið, aðgerðir og hvernig gengur en það eru engar skýrar skuldbindingar um að ná tilteknu markmiði. Markmiðin sem ríkin hafa verið að setja sér eru lítið annað en pólitískar yfirlýsingar." 

Sitja áfram aðildarþing

Fulltrúar Bandaríkjanna sitja áfram þing aðildarríkjanna næstu árin þrátt fyrir yfirlýsingar Trumps. „Þinginu hefur verið falið að þróa reglur samningsins og útfæra nánar ákvæði hans þannig að Bandaríkin munu formlega sitja við það borð á næstu árum en erfitt að sjá fyrir sér að þau verði mjög virkir þátttakendur í þeirri vinnu." 

Pennastrik Trumps stöðvar ekki þróunina

En hver verða áhrif þessa útspil Trumps á samninginn í heild og tryggð annarra ríkja við hann? Dregur það úr metnaði þeirra? 

„Ég gæti trúað því að til að byrja með hafi þetta þau áhrif að þjappa öðrum ríkjum saman, herða þeirra markmið og metnað í loftslagsmálum en til lengri tíma er erfitt að segja til um hvort þau vilja halda áfram að leggja svona mikið af mörkum þegar Bandaríkin sitja hjá." 

Bandaríkin eru það ríki sem losar næstmest af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu, á eftir Kína. Það er því kannski auðvelt að draga þá ályktun baráttan við loftslagsbreytingar sé töpuð án þeirra. Hrafnhildur vill ekki mála skrattann á veginn. „Spurningin er kannski hver áhrif þessarar ákvörðunar Donalds Trumps frá í gær verða í raun. Það er auðvitað alveg ljóst að það er farin af stað einhver þróun innan Bandaríkjanna. Það eru mörg ríki með mjög metnaðarfullar stefnuyfirlýsingar og aðgerðir eins og Kalifornía. Það hefur mikið verið að gerast í þróun á sviði endurnýjanlegrar orku og fleiri og fleiri fyrirtæki farin að sjá sér viðskiptalegan hag í því að skipta yfir í hreinni orkugjafa og standa sig betur í loftslags- og umhverfismálum. Það er ekki bara til komið vegna þrýstings frá neytendum heldur líka því þau fylgjast með þróuninni á heimsvísu og telja bara einfaldlega að það sé skynsamleg fjárfesting til framtíðar. Ég held að Trump geti ekki stöðvað þessa þróun með einu pennastriki." Hrafnhildur segir að vissulega væri betra ef alríkisstjórnin styddi framfarir en hún sé ekki einráð um hvernig Bandaríkjunum gengur í loftslagsmálum.

 

Sögusagnir um nýjan samning

Í gær sagðist Donald Trump hafa verið kjörinn til þess að vera málsvari íbúa Pittsburgh, ekki málsvari Parísarbúa. Bill Peduto, borgarstjóra Pittsburgh, var misboðið.

„Borgin okkar, Pittsburgh var svo menguð að það þurfti að hafa kveikt á ljósastaurunum allan sólarhringinn. Vandinn var ekki ósvipaður þeim sem Kína glímir við í dag," sagði Peduto í samtali við CNN. Pittsburgh hafi snúið við blaðinu, breytt hagkerfinu og verið í fararbroddi í umhverfismálum. Reynsla borgarinnar sýni fram á mikilvægi Parísarsáttmálans fyrir bandarískt hagkerfi, Trump hafi með ákvörðun sinni tekið stórt skref aftur á bak. Fleiri borgarstjórum og ríkisstjórum var misboðið í gær. „Það eru komnar á kreik sögur um að hópur ríkisstjóra, borgarstjóra og stórfyrirtækja í Bandaríkjunum ætli að útbúa sitt eigið markmið í loftslagsmálum og leggja það fram í stað loftslagsmarkmiðs Bandaríkjanna. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort þetta hleður utan á sig meiri stuðningi á næstu mánuðum." 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi