Tíu bestu fyrstu plötur íslenskra poppara

Björk
 · 
botnleðja
 · 
Bubbi Morthens
 · 
Ensími
 · 
Listar
 · 
Poppland
 · 
Poppland
 · 
Popptónlist
 · 
Stuðmenn
 · 
Topp tíu
 · 
Tónlist
 · 
Við mælum með
 · 
Þursaflokkurinn
 · 
Menningarefni

Tíu bestu fyrstu plötur íslenskra poppara

Björk
 · 
botnleðja
 · 
Bubbi Morthens
 · 
Ensími
 · 
Listar
 · 
Poppland
 · 
Poppland
 · 
Popptónlist
 · 
Stuðmenn
 · 
Topp tíu
 · 
Tónlist
 · 
Við mælum með
 · 
Þursaflokkurinn
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
12.09.2017 - 16:38.Hulda G. Geirsdóttir.Poppland
Rás 2 hefur nú skipað hóp álitsgjafa sem mun á næstunni setja saman topp tíu lista yfir ýmis tónlistartengd málefni. Fyrsta verkefnið var að velja besta frumburð, það er fyrstu breiðskífu, íslensks tónlistarmanns eða hljómsveitar.

Tæplega 50 plötur komust á blað, en hátt í 30 álitsgjafar skiluðu inn listum að þessu sinni. Sú plata sem skipar efsta sætið tók nokkuð afgerandi forystu strax og listar fóru að berast, en plöturnar í 2. og 3. sæti sóttu svo á eftir því sem niðurstöðum fjölgaði og litlu munaði á þremur efstu plötunum í lokin. Eftirtaldar plötuðu skipuðu tíu efstu sætin:


10. sæti: Mannakorn - Mannakorn

Fyrsta plata Mannakorna kom út árið 1975 og inniheldur meðal annars lögin „Kontóristinn“, „Ó þú“, „Róninn“, „Einbúinn“ og „Hudson Bay“.


8.-9. sæti: Kafbátamúsík - Ensími

Kafbátamúsík kom út árið 1998 og þótti afskaplega vel heppnað byrjendaverk einnar ferskustu sveitar Íslands. Á þessari skífu er meðal annars að finna smellinn „Atari“. 


8.-9. sæti: Goð - SH Draumur 

Goð kom út 1988 eftir snarpa upptökulotu haustið áður og hlaut góða dóma, en platan inniheldur m.a. lögin „Helmút á mótorhjóli“, „Öxnadalsheiði“ og „Ostrur“.  


7. sæti: Megas - Megas

Fyrsta plata Megasar kom út árið 1972 en hefur síðan verið endurhljóðblönduð og endurútgefin með nokkrum aukalögum, en meðal laga á upprunalegu plötunni eru „Gamli sorrí Gráni“ og „Spáðu í mig“. 


6. sæti: Hinn íslenski Þursaflokkur - Hinn íslenski Þursaflokkur

Hinn íslenski Þursaflokkur gaf út sína fyrstu plötu 1978 og lögin eru flest úr bók síra Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög. Þarna kvað við nýjan rammíslenskan þjóðlagaproggtón, en platan inniheldur m.a. lög eins og „Nútímann“, „Búnaðarbálk“ og „Einsetumaður einu sinni“. 


5. sæti: Drullumall - Botnleðja 

Botnleðja gaf út sína fyrstu plötu 1995 eftir sigur í Músíktilraunum og inniheldur hún 12 snaggarleg lög úr pönkrokkgeiranum. 


4. sæti: Life's too good - Sykurmolarnir

Frumburður Sykurmolanna kom úr árið 1988 og sló í gegn víða um heim, auk þess að hljóta ýmsar viðurkenningar í tónlistarbransanum. „Birthday“ eða „Ammæli“ var smellurinn sem kom þessu öllu af stað, en einnig má nefna lög eins og „Motorcrash“ og „Deus“.  


3. sæti: Sumar á Sýrlandi - Stuðmenn 

Fyrsta breiðskífa Stuðmanna kom út árið 1975 og inniheldur smellina „Tætum og tryllum“, „Söngur dýranna í Týrol“ og „Í bláum skugga“, frábær frumraun hljómsveitar allra landsmanna. 


2. sæti: Geislavirkir - Utangarðsmenn 

Kom út 1980 og telst tímamótaplata í íslenskri rokksögu. Beinskeyttir og grjótharðir komu Utangarðsmenn inn með látum en á plötunni má meða annars finna lögin „Hiroshima“, „Kyrrlátt kvöld við fjörðinn“ og „Sigurður er sjómaður“. 


1. sæti: Debut - Björk 

Debut kom út árið 1993 eftir að Björk sagði skilið við Sykurmolana og hóf sinn sólóferil. Hún hafði reyndar gefið út plötu sem barn, en á Debut er eingöngu að heyra hennar eigin tónlist. Platan sló í gegn um allan heim og lagði grunninn að mögnuðum alþjóðlegum tónlistarferli Bjarkar sem ekki sér fyrir endann á. Björk fékk Nellee Hooper til að vinna plötuna með sér og niðurstaðan varð einstök poppplata sem heillaði heimsbyggðina. Á Debut eru 11 lög, meðal annars „Human Behavior“, „Venus as a boy“ og „Big Time Sensuality“. Platan hlaut ótal verðlaun og viðurkenningar og hana er að finna á listum yfir bestu plötur ársins 1993 víða um heim. 

Meðal annarra platna sem komust á blað má nefna Undraland með Valdimar, Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta, Tvær plánetur með Úlfi úlfi, Quarashi með Quarashi, Spilverk þjóðanna með samnefndri sveit, Drápu með Kolrössu krókríðandi, Jet Black Joe með samnefndri sveit og Trúbrot með samnefndri sveit. 

 

Fjallað var um Debut í þættinum Árið er.

Hópurinn sem valdi listann er samsettur af áhugafólki um tónlist úr ýmsum áttum; dagskrárgerðarfólki, tónlistarmönnum og fleirum. Niðurstaðan var kynnt í Popplandi í dag.