Tölvugerð ljósmynd af Maríu Magdalenu

13.09.2017 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Hópur franskra vísindamanna hefur sett saman tölvumynd sem þeir telja að endurspegli raunverulegt útlit Maríu Magdalenu. 

María Magdalena var dygg fylgikona Jesú Krists og er sögð hafa verið vitni að bæði krossfestingu Krists og upprisu. Hún er nefnd á nafn að minnsta kosti 12 sinnum í guðspjöllunum fjórum, oftar en nokkur lærisveina Krists.

Vísindamenn við Saint Quentin en Yvelines í París hafa nú mótað ásýnd Maríu Magdalenu út frá meintri höfuðkúpu af Maríu sem varðveitt er í kirkju heilags Maximíns í suðausturhluta Frakklands.

Þeir áætluðu þykkt húðar, vöðva og vefja og lögðu ofan á þrívíddarmynd af höfuðkúpunni. Þannig varð til tilgáta um það hvernig María leit hugsanlega út.

Franski sagnfræðingurinn Jean Guyon segir að líkurnar á því að svona hafi María Magdalena litið út séu nánast engar, ekki síst fyrir þær sakir að engar heimildir eru til um að þessi vinkona Krists hafi nokkurn tíma gert sér ferð til Frakklands.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV