Tröllaukinn ísjaki brotnaði frá Suðurskautinu

12.07.2017 - 15:12
epa06082777 (FILE) - A handout photo made available by NASA shows a crack in the Larsen C ice shelf in the Antarctica, 10 November 2016 (reissued 12 July 2017). According to a statement by scientists of the MIDAS project on 12 July 2017, an iceberg has &
 Mynd: EPA  -  NASA
Tröllaukinn ísjaki brotnaði í vikunni frá jöklinum á Suðurskautslandinu. Þetta er einn stærsti hafísjaki sem nokkurn tíma hefur sést, um 6000 ferkílómetrar að flatarmáli og 200 metra þykkur. Vísindamenn greinir á um hvort loftslagsbreytingum sé um að kenna.

Jakinn brotnaði frá svæði sem nefnist Larsen C íshellan á Suðurskautslandinu. Vísindamenn hafa mánuðum saman fylgst með jakanum klofna smám saman frá jöklinum. Lengi vel hékk jakinn á bláþræði, það er að segja tveggja til þriggja kílómetra svæði, en sprungan stækkaði jafnt og þétt. Í dag bárust bárust gervihnattamyndir sem sýndu að jakinn hefði endanlega klofið sig frá jöklinum.

Til að setja stærð jakans í samhengi er hann eins og ferföld Lundúnaborg á stærð eða fjórðungur að flatarmáli Wales. Sökum stærðar mun hann ekki reka hratt frá Suðurskautslandinu, en með tíð og tíma gæti hann haft áhrif á siglingar norðan við Suðurskautslandið. Í myndbandinu hér að neðan má sjá samantekt fréttamiðils Guardian um jakann.

Jakinn kemur í sjálfu sér ekki til með að hafa áhrif á yfirborð sjávar á plánetunni, enda var hann áður á floti þó hann væri fastur við Suðurskautslandið. Það gæti hins vegar hraðað bráðnun jökulsins inn af landinu.

Loftslagsbreytingar
Vísindamenn eru ekki á einu máli hvort loftslagsbreytingar af mannavöldum hafi ýtt undir bráðnun Larsen C íshellunnar með þeim afleiðingum að hún brotnaði frá Suðurskautslandinu.

Margir vilja meina að þetta sé einfaldlega hluti af hringrás jökla. Smám saman ýtist ísinn fram af landinu og út í sjó þegar jökullinn stækkar innar. Að lokum brotni svo heilu íshellurnar frá jöklinum og reki burt, en í staðinn ýtist nýjar íshellur út af landinu.

Aðrir vilja meina að hlýnun jarðar spili inn í og hraði þessu ferli. Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að íshellan Larsen C hafi ekki verið minni frá síðustu ísöld fyrir 11.700 árum.

Tvær minni íshellur - Larsen A og Larsen B - brotnuðu frá Suðurskautslandinu fyrir skömmu síðan. Larsen A íshellan klofnaði frá jöklinum árið 1995. Hluti af Larsen B hellunni brotnaði árið 2002, en í rannsókn sem birtist árið 2015 kom fram að íshellan hefði haldist óbreytt síðastliðin 10.000 ár en hún yrði horfin með öllu á þessari öld.
 

 

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV