Uppfylla nærri því Parísarsáttmálann

03.06.2017 - 19:26
Halldór Björnsson, sérfræðingur í veður- og loftslagsbreytingum hjá Veðurstofu Íslands
 Mynd: ruv
Halldór Björnsson, sérfræðingur í loftslagsbreytingum á Veðurstofu Íslands segir að Bandaríkin fari nærri því að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum þrátt fyrir að Trump Bandaríkjaforseti hafi dregið þau út úr Parísarsamningnum.

Parísarsamningurinn setur aðildarþjóðunum ekki markmið heldur gerðu þjóðirnar það sjálfar og tilkynntu um hvernig þær hyggðust uppfylla þau. Bandaríkjamenn ætluðu að draga úr losun um 25 - 26% fyrir 2025, svo 28% fyrir 2030. Langtímamarkmið þeirra var að draga úr losun um 80% fyirir 2050.

„Ef maður skoðar losun Bandaríkjamanna síðustu árin og hvernig hún hefur verið að þróast þá er ljóst að það hefði verið tiltölulega lítið mál fyrir þá að ná þessu markmiði 2030 því að samdráttur i losun er slíkur hjá þeim að það er ekkert ólíklegt að þeir hefðu náð því hvort eð er.“

Bandaríkjamenn hefðu þurft að grípa til einhverra aðgerða en ekki stórvægilegra.

„Heldur þú að þeir nái þessu þrátt fyrir það að draga sig út úr samningnum? Það er mjög líklegt af því að ýmiss ríki þó alríkið setji ákveðnar stefnur þá hafa ríkin heilmikið um það að segja hvað þau gera. “

Ríki Bandaríkjanna hafi tilkynnt að þau ætli að halda áfram sem þýðir að Bandaríkjamenn haldi áfram að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„En hvort það nær alla leið get ég svo sem ekki sagt.“

Halldór segir að þetta sé í annað skipti sem þetta gerist. Bandaríkin hafi skrifað undir Kyoto-bókunina en svo hættu þau við árið 2001 á þeim forsendum að hún hefði of mikil áhrif á efnahag landsins. 

„Bandaríkin hins vegar dróu það mikið úr losun á skuldbindingarferlinu að þó þau næðu nú ekki að uppfylla sínar skuldbindingar þar þá voru þeir samt ekkert fjarri því.“   

„Kannski er mesta tjónið sem þeir valda að þeir geta tafið fyrir þessu. Það er ekkert mjög mikið eftir af tíma til að leysa þetta ef menn ætla að halda hlýnun undir tveimur gráðum.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV