Uppreisnarmenn Rohingja boða vopnahlé

09.09.2017 - 23:05
epa06194117 Rohingya refugees walk under the rain as they arrive at Bangladesh border at Teknaf, Bangladesh, 09 September 2017. According to United Nations more than 270,000 Rohingya refugees have fled Myanmar from violence over the last few weeks, most
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Uppreisnarmenn úr röðum Rohingja hafa tilkynnt að þeir muni láta af öllu vopnaskaki á morgun, sunnudag, og ekki taka til vopna á ný, ótilneyddir, fyrr en eftir mánuð. Í tilkynningu frá uppreisnarmönnum, sem kalla sig Frelsisher Rohingja í Rakhine-héraði (FRR), segir að þetta vopnahlé af þeirra hálfu sé hugsað til að auðvelda hjálparstarf og draga úr neyð almennings á svæðinu.

Í tilkynningunni eru öll hjálparsamtök og -stofnanir sem starfa á þessum slóðum hvött til að nýta vopnahléð til að aðstoða alla sem á hjálp þeirra þurfa að halda, óháð þjóðerni, trú eða öðru. Jafnframt er stjórnarher Mjanmar hvattur til að leggja líka niður vopn og leyfa hjálparstarfi að fara fram óhindrað.

Hvort þessi einhliða vopnahlésyfirlýsing FRR breyti einhverju um stöðu mála í Rakhine-héraði á eftir að koma í ljós. Hreyfingin virðist tiltölulega illa vopnum búin og þótt liðsmenn hennar hafi gert margar og samræmdar árásir á landamærastöðvar hinn 25. ágúst síðstliðinn, þá hefur stjórnarherinn ekki mætt mikilli mótspyrnu af þeirra hálfu síðan. Her og ríkisstjórn Mjanmar skilgreinir uppreisnarsveitir FRR sem hryðjuverkamenn.

Hartnær 300.000 Rohingjar hafa flúið til Bangladess síðan átökin milli uppreisnarmanna og stjórnarhers hófust. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV