Varð dofin og reið að heyra um uppreist æru

08.09.2017 - 16:01
Kona sem sætti langvarandi kynferðisofbeldi af hálfu stjúpföður síns þegar hún var barn segir það hafa verið áfall þegar hún frétti að maðurinn hefði fengið uppreist æru. Hann geti þannig með aðstoð stjórnvalda flúið fortíðina, en það geti hún aldrei gert.

Langvarandi ofbeldi

Hjalti Sigurjón Hauksson, sem hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm fyrir barnaníð, fékk uppreist æru í fyrrahaust. Hjalti braut gróflega gegn stjúpdóttur sinni, nær daglega, frá því hún var fimm til sex ára og þar til hún var á 18. aldursári.

Í dómi héraðsdóms segir að Hjalti hafi gerst sekur um grófa kynferðislega misnotkun gagnvart stjúpdóttur sinni í langan tíma og misnotað freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir hennar. Hann hafi brugðist trausti hennar og trúnaðarskyldu sinni gagnvart henni og höfðu brotin djúpstæð áhrif á líf stúlkunnar og sálarheill.

Frétti um uppreist æru mannsins frá fjölmiðlum

Konan, sem kemur fram undir nafnleynd vegna barna sinna, segist aldrei hafa órað fyrir því að Hjalti fengi uppreist æru. Hún frétti fyrst af því frá blaðamanni sem hafði samband við hana eftir að listi yfir þá sem fengið hafa uppreist æru var birtur á vef dómsmálaráðuneytisins. „Ég get eiginlega best lýst því þannig að mér leið eins og ég hefði orðið sjö sinnum undir valtara. Ég varð bara dofin og máttlaus,“ segir hún.

Svo hafi hún orðið reið. „Ekkert í neinum hefndarhug eða neitt svoleiðis, en ég varð bara reið og ég bara skil þetta ekki.“ Ákvörðun stjórnvalda að veita honum uppreist æru sé fáránleg. Þannig geti hann flúið fortíðina, en það geti hún aldrei gert. „Ef við tölum um fortíðina sem bakpoka, hann labbar inn í ráðuneyti og fær stimpil og plagg um það að hann geti skilið sinn bakpoka eftir. Ég get ekki skilið minn bakpoka eftir neins staðar.“

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum. Brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.