Vígahnöttur vakti athygli á kvöldhimninum

12.09.2017 - 23:28
Mynd með færslu
 Mynd: Leifur Fannar Snorrason  -  Facebook/Stjörnufræðivefurinn
„Þetta kann að vera vígahnöttur sem er óvenjubjart stjörnuhrap, bjartari en reikistjarnan Venus,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og fyrrverandi formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, um fyrirbæri sem þónokkuð margir urðu vitni að á kvöldhimninum á ellefta tímanum. Sævar segir að hann hafi þegar fengið fjölda fyrirspurna frá fólki sem vilji fá að vita hvað þetta hafi verið.

„Vígahnettir skilja stundum eftir sig slóð og miðað við vídeóið virðist hann hafa tvístrast,“ segir Sævar. „Það er erfitt að gera sér grein fyrir stærð vígahnattarins og fjarlægð vegna þess að stefna hans er ekki þekkt. Um leið og þær upplýsingar liggja fyrir er hægt að finna út úr því.“

Á Stjörnufræðivefnum er fjallað um vígahnetti. Þar kemur meðal annars fram að þeir séu loftsteinar sem geti verið frá nokkrum metrum í þvermál. Í stað þess að brenna upp sé „krafturinn sem verkar á steininn svo ógurlegur að hann þjappast saman vegna mismunarins á loftþrýstingnum fyrir framan og aftan hann. Með öðrum orðum flest steinninn út.“ Þá skilji vígahnettir stundum eftir sig sjálflýsandi slóðir sem geti enst lengi. 

Stjörnufræðivefurinn deilir myndskeiði af vígahnettinum á Facebook. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV