Vill minnst 18 ára fangelsisdóm yfir Thomasi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir hafið yfir allan grun að Thomas Møller Olsen hafi svipt Birnu Brjánsdóttur lífi í janúar. Engu skipti að ekki væri ljóst hvar líki hennar hefði verið komið í sjó eða vatn þar sem hún drukknaði. Kolbrún fór fram á þyngri refsingu yfir Thomasi en hina hefðbundnu sextán ára fangelsisrefsingu sem menn hafa fengið fyrir manndráp. „Átján ára fangelsi er algjört lágmark.“

Kolbrún vísaði til þess að Thomas hefði nýlega fengið dóm í heimalandi sínu fyrir fíkniefnabrot. 

Thomas einn viti hvar Birna var skilin eftir

„Málið hófst á leit að stúlku sem skilaði sér ekki heim,“ sagði Kolbrún varahéraðssaksóknari þegar hún hóf málflutning sinn í málinu gegn Thomasi Møller Olsen eftir hádegi í dag. Hún sagði sannað að mati ákæruvaldsins að ráðist hefði verið á Birnu í rauða Kia Rio bílnum sem Thomas hafði á leigu. Það væri svo niðurstaða allra sérfræðinga að Birna hefði verið slegin ítrekað í höfuð og andlit auk þess sem hert hafi verið að hálsi hennar. Hún hafi verið með skerta meðvitund, en ekki látin, þegar henni var komið fyrir í sjó eða vatni. Kolbrún sagði að eini maðurinn sem vissi hvar Birnu hefði verið komið fyrir væri Thomas, sem ákærður er fyrir morðið á henni.

Kolbrún sagði að grunsemdir hefðu vaknað hjá lögreglu við fyrstu skýrslutökur um að Thomas segði ekki satt og rétt frá. Hann hefði í fyrstu neitað að hafa farið inn á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur en upptökur úr eftirlitsmyndavélum hafi leitt hið sanna í ljós. Þá hafi Thomas lýst því yfir að hann hafi tekið tvær stelpur upp í bíl sinn og að lokum keyrt þær að Reebok líkamsræktarstöðinni í Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Þar sást bíllinn ekki á eftirlitsmyndavélum. Fyrir dómi hafi stúlkan svo verið ein í stað tveggja og Nikolaj Olsen, sem einnig var í gæsluvarðhaldi um skeið, ekið á brott með henni. „Þessi saga gengur ekki upp,“ sagði Kolbrún. Til að mynda sæist bíllinn aðeins einu sinni við golfskálann þar sem Thomas sagðist hafa beðið meðan Nikolaj keyrði burt. Að auki væri tímaramminn slíkur að ekkert óútskýrt gat væri á þessum tíma. Það tæki um fimmtán mínútur að keyra frá Sæbraut í Reykjavík að golfskálanum og 20 mínútur þaðan að Polar Nanoq. Kolbrún sagði að þessi tími hefði ekki dugað til að Nikolaj gæti gengið í skrokk á Birnu og komið henni fyrir á óþekktum stað.

Öll gögn bendi á Thomas

Öll rannsóknargögn benda á Thomas, sagði Kolbrún í málflutningi sínum. Hún tiltók skó Birnu sem fundust við Óseyrarbraut þar sem Thomas sást á rauða Kia Rio bílnum. Einnig úlpu Thomasar sem hafi verið með blóðkám, blóðið væri úr Birnu. Að auki sé hafið yfir allan vafa af fingrafar af hægri vísifingri Thomasar sé á ökuskírteini Birnu sem fannst um borð í Polar Nanoq.

Þá sagði Kolbrún að saga Thomasar um að hann hefði átt að hitta ónafngreindan mann og afhenda honum pakka stæðist ekki. Saga hans um að hafa verið í samskiptum við hann gegnum dulkóðað forrit stæðist ekki þar sem síminn sýndi enga virkni þess forrits nóttina sem Birna hvarf. Þá hafi rannsókn á bílnum leitt í ljós mikið blóð úr Birnu en enga ælu sem Thomas tiltók sem ástæðu þess að hann þreif bílinn.

Ekkert bendli Nikolaj við hvarf Birnu

Thomas vísaði á Nikolaj um hvarf Birnu í skýrslugjöf sinni fyrir dómi. Kolbrún sagði að við rannsókn málsins hefði ekkert bendlað Nikolaj við hvarf Birnu. Hann hefði drukkið mikið um nóttina og dáið áfengisdauða um nóttina. Fötin sem hann var í nóttina sem Birna hvarf hafi sést á myndavélum og þau fundust um borð í skipinu. Þau höfðu ekki verið þvegin og ekkert blóð var í þeim. Á móti sé blóð úr Birnu á úlpu Thomasar og lífsýni úr honum á skóreimum hennar. Þá hafi hann engar skýringar gefið á þeim 319 kílómetrum sem hafi verið eknir á rauða Kia Rio bílnum.