RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Nýir starfsmenn hjá KrakkaRÚV

Mynd með færslu
KrakkaRÚV hefur fengið góðan liðsstyrk. Þau Sævar Helgi Bragason, Jóhannes Ólafsson og Ingibjörg Fríða Helgadóttir bætast í hóp dagskrárgerðarmanna. Í vetur verður KrakkaRÚV með fastan dagskrárlið á Rás 1 kl.18:30 frá mánudegi til fimmtudags.

Sævar Helga Bragason þekkja margir sem Stjörnu-Sævar. Hann er jarðfræðingur að mennt og hefur verið vikulegur gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 undanfarin misseri. Sævar hefur komið víða við á sviði vísinda og þá sérstaklega stjörnufræði. Sævar verður með vikulegan þátt á Rás 1 og hann verður einnig umsjónarmaður Krakkafrétta ásamt Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur.

Jóhannes Ólafsson er menntaður í bókmenntafræði og ritlist. Hann hefur einnig gengið til liðs við Krakkafréttir, situr í ritstjórn og skrifar handrit þáttanna í vetur. Á mánudögum verður nýr dagskrárliður á Rás 1, sem heitir Krakkafréttir vikunnar, í hans umsjón. Jóhannes hefur m.a. starfað við þýðingar og í leik- og grunnskóla en í sumar vann hann við dagskrárgerð á Rás 1.

Ingibjörg Fríða Helgadóttir er tónlistarkona með fjölbreyttan bakgrunn. Hún lauk burtfararprófi í klassískum söng frá Tónlistarskóla Garðabæjar, og jazzsöng frá Tónlistarskóla FÍH. Hún hefur einnig lokið BA-prófi í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands. Ingibjörg sér um vikulegan þátt KrakkaRÚV á Rás 1.