RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Opið fyrir innsendingar í Söngvakeppnina 2018

Mynd með færslu
Söngvakeppnin 2018 verður haldin í febrúar og mars næstkomandi, en opnað hefur verið fyrir innsendingar laga til þátttöku. Hefur verðlaunaféð í Söngvakeppninni verið hækkað úr einni milljón í þrjár.

Leitað verður að 12 lögum sem hafa burði til að koma Íslandi alla leið í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Lissabon í Portúgal í maí.

Fyrirkomulag keppninnar verður með svipuðu sniði og fyrri ár. Verður forkeppnin haldin dagana 10. og 17. febrúar í Háskólabíói, þar sem sex lög keppa og þrjú komast áfram hvort kvöldið.  Úrslitakvöldið verður tveimur vikum síðar, 3. mars 2018. Þar keppa sex lög til úrslita, sem fara fram í Laugardalshöll.

Söngvakeppnin 2018 verður stórviðburður þar sem öllu verður tjaldað til. Líkt og síðustu ár býðst almenningi að vera á staðnum og fá Söngvakeppnina beint í æð og verður miðasala auglýst síðar. 

Fjölbreytileikanum fagnað

RÚV hvetur alla laga- og textahöfunda sem vilja taka þátt Söngvakeppninni 2018 og halda áfram að móta tónlistarsögu Íslands að senda inn lag. Við bendum höfundum sérstaklega á að Söngvakeppnin snýst um fjölbreytni. Allar tegundir tónlistar eru boðnar velkomnar.

Hægt er að hlaða upp lögum inn hér eða í gegnum vef söngvakeppninnar fram til föstudagsins 20. október kl. 23.59. Athugið að ekki verður hægt að hlaða upp lögum eftir þann tíma. Á vefnum er jafnframt hægt að finna allar helstu upplýsingar og reglur keppninnar. 

 

13.09.2017 kl.14:03
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Eurovision, Í umræðunni, Keppni, Söngvakeppnin, Söngvakeppnin 2018